Innlent

Upplýsingastjórinn tók eigin hugmynd sem dæmi í kynningu íbúakosningar

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Kosið var um hugmynd upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar en hugmyndin var notuð sem dæmi í kynningu á kosningunni á Facebook-síðu borgarinnar, sem heyrir undir upplýsingastjórann.
Kosið var um hugmynd upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar en hugmyndin var notuð sem dæmi í kynningu á kosningunni á Facebook-síðu borgarinnar, sem heyrir undir upplýsingastjórann.
Hugmynd Bjarna Brynjólfssonar, upplýsingastjóra Reykjavíkurborgar, um að leggja göngustíg meðfram KR-vellinum var tekin sem dæmi um hugmyndir sem Vesturbæingar gátu kosið um í íbúakosningu á Facebook-síðu borgarinnar. Bjarni er einn nokkurra stjórnenda síðunnar en hún heyrir undir hans svið.



Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar hefur verið falið að skoða athugasemdir sem fulltrúar Sjálfstæðisflokks í stjórnkerfis- og lýðræðisráði borgarinnar, Hildur Sverrisdóttir og Áslaug María Friðriksdóttir, gerðu á fundi ráðsins í dag. Í bókun sem þær lögðu fram kemur fram að óásættanlegt sé að upplýsingafulltrúinn hampi eigin hugmynd á síðu borgarinnar.



Tillaga ráðsins um að vísa athugasemdunum til innri endurskoðunar var samþykkt samróma.



„Ekki verður annað sagt en að hér sé um spillingu að ræða sem er nauðsynlegt að grípa til aðgerða gegn,“ segir í bókuninni. Kosningin var bindandi og snerist um 300 milljóna framkvæmdir í hverfum borgarinnar. „Málið er því vægast sagt vafasamt og kallað er eftir viðbrögðum meirihlutans í Reykjavík sem ber að sjálfsögðu pólitíska ábyrgð á þeim æðstu embættismönnum sem tala í nafni Reykjavíkur,“ segja þær.



Í bókuninni var vísað í Facebook-færslu Bjarna á sinni eigin síðu frá 18. febrúar 2015 en þar sagði hann: „Endilega kjósið hugmyndina mína um göngustíg meðfram KR vellinum.“ Tveimur dögum síðar birtist svo færsla á síðu borgarinnar þar sem sagði: „Hér gæti komið gangstétt meðfram KR vellinum ef íbúar í Vesturbæ kjósa þá hugmynd sem er á lista yfir verkefni í Vesturbænum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×