Innlent

Upplýsingafulltrúi ríkisstjórnar sakaður um að fara með rangt mál og róg

Jakob Bjarnar skrifar
Ritstjórinn vandar upplýsingafulltrúanum ekki kveðjurnar og segir að svo virðist sem hann sé á launum hjá ríkisstjórninni við að níða skóinn af óþægilegum borgurum.
Ritstjórinn vandar upplýsingafulltrúanum ekki kveðjurnar og segir að svo virðist sem hann sé á launum hjá ríkisstjórninni við að níða skóinn af óþægilegum borgurum.
Haukur S. Magnússon ritstjóri Grapevine svarar grein Sigurðar Más Jónssonar upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar fullum hálsi og fullyrðir að hann fari með rangt mál.

Tímaritið Grapevine birti fyrir nokkur frétt eftir Hauk Má Helgason þar sem hann fer ýtarlega yfir samskipti við Sigurð Má Jónsson upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar vegna frétta Grapevine, meðal annars af ferðum Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og aðstoðarmönnum hans sjö, sem Sigurður Már segir að séu tveir: Lögum samkvæmt.

Vísir birti í dag aðsenda grein Sigurðar Más þar sem hann greinir frá sinni hlið málsins, þar segir hann meðal annars að sér þyki skjóta skökku við að ekki megi koma á framfæri ábendingum um rangfærslur.

Að ekki megi leiðrétta blaðamenn

„Það kom mér þess vegna á óvart að sjá Grapevine gera þessi samskipti að sérstöku umræðuefni á vef sínum síðar sama dag og gefa í skyn að undirritaður hafi farið fram með ógnunum og hótunum. Það eru stór orð sem eiga sér enga stoð. Í fréttum nokkurra annarra miðla af samskiptunum er þeim líkt við tilraun til ritskoðunar! Slíkt er auðvitað fjarri lagi og ekkert hefur verið lagt fram sem rennir stoðum undir slíkt.“

Sigurður lýkur erindi sínu á því að segja gagnrýna umræðu þarfa en ástæðulaust sé að búa til grýlur þar sem engar eru: „Hlutlæg blaðamennska sem byggir á staðreyndum og sanngirni gegnir mikilvægu samfélagshlutverki og það minnkar enginn blaðamaður við það að leiðrétta það sem rangt er sagt. Eftir stendur sú spurning; telja einstaka fjölmiðlamenn að við þeirra verk megi ekki gera athugasemdir?“

Á launum við að níða borgara

Haukur S. Magnússon ritstjóri Grapevine birtir í athugasemdakerfi Vísis, við grein Sigurðar Más (meðfylgjandi) harðort bréf þar sem hann segir Sigurð Má fara með ósannindi, og gott betur. Eða svo gripið sé niður í athugasemd Hauks:

„Í samskiptum okkar tókstu sérstaklega fram að tiltekinn fjölmiðill (DV) væri ekki traust heimild, og tiltekinn blaðamaður (Jóhann Páll Jóhannsson) hefði annarlegar hvatir og væri ekki marktækur.

Að ríkisstjórn landsins hafi menn á launum við að níða einstaka borgara, sem hafa reynst henni óþægilegir, og bera út um þá róg er ógeðfelld tilhugsun.

Satt að segja er erfitt að ímynda sér nokkuð hræðilegra.“

Athugasemd ritstjórans

Ágæti upplýsingafulltrúi,

í umfjöllun Nönnu Árnadóttir, sem þú leitaðist við að leiðrétta síðastliðinn föstudag, stóð (og stendur):

“According to DV, Sigmundur Davíð has more advisors and assistants than previous prime ministers, seven in all.”

(http://grapevine.is/news/2014/12/12/pm-ditches-parliament-to-go-on-holiday-doesnt-tell-anyone/)

Þetta er efnislega satt.

---

Í umfjöllun The Reykjavík Grapevine um samskipti við upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar er því hvergi haldið fram að sá hafi komið fram með ógnunum og hótunum. Það eina sem blaðamaðurinn Haukur Már gerir er að rekja þau samskipti efnislega, í samræmi við tölvupósta og frásagnir viðmælenda upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þetta má staðfesta með því að lesa umfjöllunina, hér:

https://grapevine.is/news/2014/12/12/governments-press-secretary-encourages-grapevine-to-reconsider-story-on-pms-holiday/

Henni hefur ekki verið breytt frá birtingu.

Þú ferð með rangt mál.

---

Í samskiptum okkar tókstu sérstaklega fram að tiltekinn fjölmiðill (DV) væri ekki traust heimild, og tiltekinn blaðamaður (Jóhann Páll Jóhannsson) hefði annarlegar hvatir og væri ekki marktækur.

Að ríkisstjórn landsins hafi menn á launum við að níða einstaka borgara, sem hafa reynst henni óþægilegir, og bera út um þá róg er ógeðfelld tilhugsun.

Satt að segja er erfitt að ímynda sér nokkuð hræðilegra.

---

PS: Það er skemmtilega samhengislaust að þú nefnir útskýringar mínar á orðalaginu „ditches“ í tengslum við leiðréttingar þínar, enda var það eitt af fjölmörgum efnisatriðum sem þú gerðir athugasemd við en leiðréttir ekki (enda var ekkert að leiðrétta).

PPS: Við höfum all-oft reynt að ná tali af þeirri eflaust ágætu ríkisstjórn sem þú stýrir upplýsingagjöf fyrir, við vinnslu lengri fréttaskýringa og rannsókna (svo dæmi sé tekið: ítarleg umfjöllun um heilbrigðiskerfið okkar og þá vanda sem að því steðja í síðasta tölublaði RGV:

http://grapevine.is/mag/feature/2014/12/09/squeezing-blood-from-a-turnip-icelands-universal-healthcare-at-risk/).

Af einhverjum ástæðum gengur alltaf ákaflega illa að ná tali af fulltrúum stjórnarinnar og fá þeirra sjónarmið fram. Ég gæti til dæmis nefnt að þrátt fyrir að þú hafir að eigin sögn sinnt upplýsingagjöf í fimmtán mánuði fréttum við fyrst af tilvist þinni og þinnar stöðu sl. föstudag, þrátt fyrir að hafa, eins og ég segi, endurtekið leitað eftir viðbrögðum og upplýsingum frá ríkisstjórn þeirri sem þú sinnir upplýsingagjöf fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×