Innlent

Upplýsingafulltrúi Icelandair um lopapeysuna: „Falleg vara sem er gaman að gefa“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rahm virtist vera sáttur með lopapeysuna sem er frá 66° Norður og gjöf frá Icelandair en iðnaðar-og viðskiptaráðherra afhenti honum peysuna fyrir hönd fyrirtækisins.
Rahm virtist vera sáttur með lopapeysuna sem er frá 66° Norður og gjöf frá Icelandair en iðnaðar-og viðskiptaráðherra afhenti honum peysuna fyrir hönd fyrirtækisins. Mynd/Vísir
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir fyrirtækið gjarnan taka með sér gjafir vegna stórra viðburða erlendis, eins og þegar verið sé að opna nýja flugleið. Slíkt var til að mynda gert núna í vikunni þegar Icelandair flaug í fyrsta skipti til Chicago í Bandaríkjunum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, afhenti þá borgarstjóra Chicago lopapeysu fyrir hönd Icelandair en sitt sýnist hverjum um peysuna sem er frá 66° Norður og framleidd í Kína.

Handprjónasambandið sendi til að mynda frá sér yfirlýsingu vegna peysunnar þar sem segir að það sé miður sín yfir peysunni enda leggi það „metnað í að hafa til sölu vandaðar lopapeysur og peysurnar okkar eru allar prjónaðar á Íslandi sem ekki er reyndin með mikið af þeim peysum sem til sölu eru hér.“

Guðjón segir að Icelandair gefi oftast bækur um Ísland eða íslenska hönnun í tengslum við tilefni af því tagi sem var í Chicago í vikunni.

„Það voru teknar með nokkrar lopapeysur frá 66° Norður með þessari nýju hönnun og þær afhentar forystumönnum flugvalla og ferðamála og svo borgarstjóra sjálfum í þakklætisskyni fyrir viðtökurnar og aðstoð við uppbyggingu flugsins. Ráðherra tók svo að sér fyrir okkar hönd að afhenda borgarstjóranum þennan þakklætisvott,“ segir Guðjón.

 

Aðspurður af hverju ákveðið var að gefa peysu frá 66° Norður sem framleidd er í Kína en ekki peysur sem prjónaðar eru á Íslandi segir Guðjón:

„Það er engin sérstök hugsun þar að baki önnur en sú að þetta er falleg vara sem er gaman að gefa.“

En skiptir þá engu máli hvar varan er framleidd þegar þið eruð að gefa svona gjafir?

„Nei, við veljum gjöf sem er gaman að gefa og sýnir Ísland í fallegu ljósi.“


Tengdar fréttir

Lopapeysan framleidd í Kína

Lopapeysan sem Ragnheiður Elín Árnadóttir afhenti borgarstjóra Chicago, Rahm Emanuel, í gær er framleidd í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×