Innlent

Upplýsa ekki um sjúklinga

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Álfheiður Ingadóttir fór fram á fundinn með landlækni vegna mikillar umræðu undanfarið um ofskömmtun lyfja.
Álfheiður Ingadóttir fór fram á fundinn með landlækni vegna mikillar umræðu undanfarið um ofskömmtun lyfja.
Velferðarnefnd fundaði í gær með Geir Gunnlaugssyni landlækni um eftirlit með lyfjaávísun og lyfjanotkun.

„Landlæknir fór yfir það hvernig þeirra eftirliti er háttað og benti okkur líka á að embættið hefði ritað heilbrigðisráðherra bréf varðandi veikleika í kerfinu og hvað þyrfti til þess að landlæknir geti sinnt þessu hlutverki betur,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nefndarinnar.

Miklar umræður hafa verið undanfarið um ávísanir ávanabindandi lyfja. Þess vegna óskaði Álfheiður Ingadóttir, sem á sæti í velferðarnefnd, eftir fundinum. Meðal annars vegna frétta Fréttablaðsins af þessum málum og nýrrar rannsóknar sem sagt var frá í Læknablaðinu og fjallar um dauðsföll af völdum ávana- og fíkniefna.

„Ég vildi fá að heyra hvernig landlæknisembættið væri að bregðast við. Það var gert átak á sínum tíma eftir að Jóhannes Kr. Kristjánsson fjallaði um dauða dóttur sinnar. Þá var ansi mikil umræða og regluverkið hert. Ég vildi vita hvað hefði gerst síðan,“ segir Álfheiður.

Á fundinum afhenti landlæknir nefndinni bréf sem hann sendi til heilbrigðisráðherra.

„Á grundvelli þess munum við taka ákvarðanir um næstu skref,“ segir Sigríður.

Álfheiður segir landlækni hafa kynnt þeim breytingar á lyfjagagnagrunninum sem búist sé við að verði tilbúnar um áramót.

„Eftir stendur að það eru margir sem vilja ekki veita landlækni upplýsingar, telja sig bundna af persónuverndarlögum og gefa ekki upp notendur lyfja eða þjónustu,“ segir Álfheiður.

Geir Gunnlaugsson landlæknir segir fundinn hafa verið gagnlegan. „Við sem mættum fyrir hönd embættisins vorum mjög ánægð með það tækifæri sem við fengum til að ræða þessi mál við nefndina,“ segir hann.

Varðandi þann hóp sem ekki vill veita landlækni þær upplýsingar sem óskað er eftir segir hann flókið að skýra það út. Á þriðja tug lækna vilji ekki veita þessar upplýsingar.

„Við höfum óskað eftir upplýsingum um þjónustu sem fram fer á starfsstöðvum lækna. Það er ákveðinn hópur sem neitar að afhenda landlækni gögn. Hvað varðar lyfjagagnagrunninn þá snýr það að persónuvernd upplýsinga; hvernig við getum aflað okkur upplýsinga um einstaklinga því við vinnum alltaf með ópersónugreinanleg gögn. Þetta er bara einn angi af miklu stærra máli, það stendur ekki og fellur með þeim upplýsingum en saman myndar það heild,“ segir Geir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×