Innlent

Upplausn hjá Félagi kvenna í lögmennsku

snærós sindradóttir skrifar
Skiptar skoðanir eru á gagnrýni Kristrúnar Elsu Harðardóttur á nýjar tillögur Lögmannafélags Íslands um breytingu á lögmannalögum.
Skiptar skoðanir eru á gagnrýni Kristrúnar Elsu Harðardóttur á nýjar tillögur Lögmannafélags Íslands um breytingu á lögmannalögum.
Meirihluti stjórnar Félags kvenna í lögmennsku hefur sagt sig úr stjórn eða stefnir á úrsögn í tengslum við gagnrýni formanns félagsins á nýjar tillögur Lögmannafélags Íslands um breytingu á lögmannalögum.

Fréttablaðið hefur fjallað ítarlega um breytingarnar en þær miða að því að herða skilyrði héraðsdómslögmanna til að fá málflutningsréttindi í Landsrétti, nýja millidómsstiginu, og enn frekar til að fá málflutningsréttindi í Hæstarétti. Kristrún Elsa Harðardóttir, formaður Félags kvenna í lögmennsku, gagnrýndi þessar breytingar í frétt Fréttablaðsins og víðar og sagði að tillögurnar litu út fyrir að eiga að tryggja eldri lögmönnum mál í Hæstarétti til lengri tíma.

Í viðtali við RÚV sagði Kristrún að Lögmannafélag Íslands væri og hefði verið karlaveldi. Í tilkynningu frá félaginu á Facebook harmar félagið svo ummæli formanns Lögmannafélags Íslands í hádegisfréttum RÚV um málið. Tilkynningunni mætti nokkur mótstaða kvenkyns lögmanna sem töldu að félagið gæti ekki fullyrt fyrir hönd allra félagsmanna því ekki hefði verið haldinn fundur um málið.

Nú hafa tveir aðalmenn og tveir varamenn sagt sig úr stjórninni. Fréttablaðið hefur sömuleiðis heimildir fyrir því að einn aðalmaður í viðbót hyggist hætta þegar ný stjórn verður kosin. Búið er að auglýsa eftir framboðum þriggja aðalmanna og tveggja varamanna. Alls sitja fimm aðalmenn og tveir varamenn í stjórninni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ástæða úrsagnarinnar meðal annars ofangreind útskýring en gagnrýni formannsins í fjölmiðlum hafi sett punktinn yfir i-ið í langvarandi óánægju. Formaðurinn njóti ekki trausts þeirra sem eftir sitja.

„Ég fékk tölvupóst frá þeim öllum í sitthvoru lagi þar sem mismunandi ástæður eru gefnar fyrir [úrsögninni]. Ákvörðun um að gagnrýna þessar tillögur hjá lögmannafélaginu var tekin á stjórnarfundi þar sem meirihluti stjórnar mætti og samþykkti hana. Þær konur sem hafa sagt sig úr stjórninni voru ekki mættar á þann fund og hafa þá verið ósáttar við þá ákvörðun. Sú gagnrýni kom ekki fram fyrr en löngu seinna.“ Kristrún segir að fyrir stjórnarfundinn hafi málið verið rætt í tölvupóstsamskiptum og því hafi niðurstaðan ekki átt að koma þeim á óvart.

„Lögmannafélagið er gamalt og gróið félag. Þegar maður potar í eitthvað sem er gamalt og gróið þá hlaupa einhverjir í burtu og eru hræddir við mótlætið,“ segir Kristrún.

Kristrún segir að ekki sé komin fram krafa um að kosið verði um nýjan formann á félagsfundinum. Hún hyggist halda áfram sem formaður.


Tengdar fréttir

Tillögur sniðnar að eldri lögmönnum

Breyting á lögmannalögum getur lengt tímann fyrir héraðsdómslögmenn til að fá réttindi til að flytja mál í Hæstarétti um allt að þrjú ár. Formaður félags kvenna í lögmennsku segir tillögurnar metnaðarlausar og í ósamræmi við




Fleiri fréttir

Sjá meira


×