Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Tekst Liverpool að saxa á forskot Chelsea?

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tveir leikir fara fram í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en í hádegisleiknum tekur Bournemouth á móti Liverpool áður en Manchester United ferðast yfir til Bítlaborgar og mætir Everton.

Lærisveinar Jurgen Klopp eru á miklu flugi þessa stundina en Liverpool hefur leikið ellefu leiki í röð án taps en á þessum tíma hefur liðið nælt í 27 stig af 33 mögulegum.

Liverpool lenti í vandræðum án Philippe Coutinho gegn Sunderland í síðustu umferð en brasilíski galdramaðurinn fór meiddur af velli og verður ekki með liðinu í jólavertíðinni.

Bournemouth siglir lygnan sjó um miðja deild eftir þrettán umferðir en liðinu mistókst í síðustu umferð að vinna annan leikinn í röð.

Lærisveinar Eddie Howe hafa aðeins fengið fjögur stig í síðustu fimm leikjum en Bournemouth hefur aldrei tekist að vinna Liverpool í keppnisleik.

Í seinni leik dagsins mætast Everton og Manchester United í 49. skiptið í ensku úrvalsdeildinni en gestirnir frá Manchester hafa unnið 33 af 48 leikjum hingað til.

Everton hefur aðeins nælt í sex stig í síðustu sex leikjum eftir góða byrjun á ensku úrvalsdeildinni en Everton hefur aðeins skorað einu sinni í síðustu þremur leikjum.

Manchester United er einnig að ganga í gegnum erfiða tíma í deildinni en þetta er versta byrjun Manchester United í ensku úrvalsdeildinni síðustu 26 ár. Manchester United hefur aðeins nælt í átta stig í síðustu sjö leikjum.

Wayne Rooney, fyrirliði Manchester United, verður ekki með liðinu í leiknum í dag vegna leikbanns eftir að hafa nælt í gult spjald í deildarbikarnum í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×