Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Heldur sigurganga Chelsea áfram? | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö leikir fara fram í 14. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag.

Dagurinn hefst með stórleik Manchester City og Chelsea þar sem toppsætið er undir.

Chelsea er heitasta lið deildarinnar en lærisveinar Antonios Conte hafa unnið sjö leiki í röð með markatölunni 19-1. Man City hefur unnið tvo torsótta útisigra í röð, gegn Crystal Palace og Burnley.

Gylfi Þór Sigurðsson mætir aftur á sinn gamla heimavöll þegar Swansea City sækir Tottenham heim. Svanirnir unnu ævintýralegan sigur á Palace í síðustu umferð og geta farið upp úr fallsæti með sigri í dag.

Botnlið Sunderland fær Englandsmeistara Leicester City í heimsókn. Hvorugu liðinu hefur gengið vel í deildinni í vetur.

Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með Burnley gegn Stoke City vegna meiðsla. Burnley hefur tapað tveimur leikjum í röð og þarf á sigri að halda í dag.

Alan Pardew situr í heitasta sæti deildarinnar en Palace hefur tapað sex leikjum í röð. Strákarnir hans Pardew fá tækifæri til að bæta ráð sitt gegn Southampton á heimavelli.

Liðin í 8. og 9. sæti deildarinnar, West Brom og Watford, mætast á The Hawthornes.

Í síðdegisleiknum tekur West Ham á móti Arsenal. Skytturnar hafa ekki tapað síðan í 1. umferðinni og hugsa sér eflaust gott til glóðarinnar gegn Hömrunum sem hefur gengið illa á tímabilinu.

Leikir dagsins:

12:30 Man City - Chelsea (sýndur beint á Stöð 2 Sport HD)

15:00 Tottenham - Swansea (sýndur á Sport 2 klukkan 17:15)

15:00 Sunderland - Leicester (sýndur á Sport 3 klukkan 19:00)

15:00 Stoke City - Burnley (sýndur á Sport klukkan 19:30)

15:00 Cr. Palace - Southampton (sýndur á Sport 2 klukkan 19:50)

15:00 West Brom - Watford (sýndur á Sport 3 klukkan 20:40)

17:30 West Ham - Arsenal (sýndur beint á Sport)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×