Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Geta City-menn stöðvað Spurs? | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sjö leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Þar ber hæst leikur Manchester City og Tottenham á Etihad vellinum klukkan 17:30.

Spurs hefur unnið sex leiki í röð og með sigri á Etihad minnkar liðið forskot toppliðs Chelsea niður í fjögur stig. City steinlá fyrir Everton, 4-0, um síðustu helgi og er lent 10 stigum á eftir Chelsea.

Tottenham vann fyrri leik liðanna á White Hart Lane með tveimur mörkum gegn engu.

Í hádeginu tekur Liverpool á Swansea City. Með sigri minnkar Liverpool forystu Chelsea niður í fjögur stig.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea þurfa nauðsynlega á stigum að halda en þeir sitja á botni deildarinnar. Þeir eru þó aðeins einu stigi frá öruggu sæti.

Fimm leikir hefjast svo klukkan 15:00.

Manchester United sækir Stoke City heim. United hefur ekki tapað deildarleik frá 23. október en situr samt sem fastast í 6. sætinu. Stoke er þremur sætum neðar.

Everton, sem er á góðu skriði, mætir Crystal Palace á Selhurst Park. Palace á enn eftir að vinna deildarleik undir stjórn Sams Allardyce.

West Brom, sem steinlá fyrir Tottenham um síðustu helgi, fær Sunderland í heimsókn. Sunderland hefur aðeins fengið eitt stig í síðustu fjórum leikjum sínum.

West Ham hefur unnið þrjá af síðustu fimm leikjum sínum og mætir Middlesbrough á Riverside.

Þá sækir Watford Bournemouth heim.

Leikir dagsins:

12:30 Liverpool - Swansea (beint á Stöð 2 Sport HD)

15:00 Stoke - Man Utd (beint á Stöð 2 Sport HD)

15:00 Crystal Palace - Everton

15:00 West Brom - Sunderland

15:00 Middlesbrough - West Ham

15:00 Bournemouth - Watford

17:30 Man City - Tottenham (beint á Stöð 2 Sport HD)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×