Enski boltinn

Upphitun fyrir leiki dagsins: Arsenal getur farið á toppinn | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sex leikir fara fram í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Dagurinn hefst með leik Watford og Everton á Vicarage Road. Bæði lið hafa gefið eftir á undanförnum vikum og þurfa því á sigri að halda.

Fjórir leikir hefjast svo klukkan 15:00.

Arsenal getur farið á toppinn vinni liðið Stoke City með tveimur mörkum eða meira. Skytturnar hafa ekki tapað síðan í 1. umferðinni og eru til alls líklegar. Stoke, sem hefur aðeins tapað einum af síðustu níu leikjum sínum, er í 9. sæti deildarinnar.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í botnliði Swansea City mæta Sunderland sem er komið upp í 18. sætið eftir þrjá sigra í síðustu fjórum leikjum sínum.

Það verður einnig mikið undir þegar Crystal Palace sækir Hull City heim. Palace vann loks í síðustu umferð eftir sex tapleiki í röð.

Bournemouth, sem vann ævintýralegan sigur á Liverpool í síðustu umferð, sækir Burnley heim. Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki með Burnley vegna meiðsla.

Í lokaleik dagsins taka Englandsmeistarar Leicester City á móti Manchester City. Bæði lið töpuðu sínum leikjum um síðustu helgi.

Man City er í 4. sætinu, fjórum stigum á eftir toppliði Chelsea, en Leicester er aðeins tveimur stigum frá fallsæti.

Leikir dagsins:

12:30 Watford - Everton (sýndur beint á Stöð 2 Sport HD)

15:00 Arsenal - Stoke (sýndur beint á Stöð 2 Sport)

15:00 Swansea - Sunderland (sýndur á Sport 2 klukkan 17:15)

15:00 Hull - Crystal Palace (sýndur á Sport 2 klukkan 19:00)

15:00 Burnley - Bournemouth (sýndur á Sport 3 klukkan 19:00)

17:30 Leicester - Man City (sýndur beint á Stöð 2 Sport)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×