Lífið

Upphaf langrar ferðar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Bjarni Jónsson hefur hlotið Grímuverðlaunin og Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin.
Bjarni Jónsson hefur hlotið Grímuverðlaunin og Norrænu útvarpsleikhúsverðlaunin. Vísir/Stefán
„Árið er 1982. Sjómannadagurinn er fram undan. Það er barist í Palestínu og Bubbi Morthens túrar með Egó um landið til þess að kynna nýjustu plötu sveitarinnar: Breyttir tímar. Ungur drengur hefur verið sendur í fóstur til barnlausra hjónaleysa vestur á fjörðum.“

Þannig hefst lýsing á innihaldi nýs verks eftir Bjarna Jónsson leikskáld sem æfingar eru að hefjast á í Borgarleikhúsinu. Það nefnist Sending og áætluð frumsýning er 9. september.

Fyrsti samlestur á Sendingu verður í dag klukkan 13 og öllum er velkomið að fylgjast með henni, að sögn Alexíu Bjargar Jóhannesdóttur, kynningarstjóra Borgarleikhússins.

Hún segir Sendingu spennandi verk um áhrifaríkt efni sem snerti við fólki og veki það til umhugsunar enda sé Bjarni eitt af okkar öflugstu leikskáldum og hafi hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar.

Auk upplesturs leikaranna munu leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar kynna hugmyndir sínar.

„Samlestur er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Hann er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni,“ segir Alexía og tekur fram að kaffi verði á könnunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×