Tónlist

Uppgjör við fyrri lífsstíl

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Dabbi T gefur út sitt fyrsta myndband í dag.
Dabbi T gefur út sitt fyrsta myndband í dag. Vísir/AntonBrink
Davíð Tómas Tómasson, eða Dabbi T, gefur út myndband við lagið Blár í dag. Lagið er það fyrsta sem hann gefur út í 5 ár og einnig er um að ræða fyrsta skiptið sem hann gefur út myndband.

Dabbi T hefur verið viðloðandi íslenskt rapp í ansi mörg ár og má segja að hann sé orðinn tiltölulega gamall í hettunni, svona í rappárum talið allaveganna. Hann gaf út plötuna Óheflað málfar árið 2008 og var í hljómsveitinni 32c ásamt Emmsjé Gauta og Nagmús - sem er í dag betur þekktur sem Gnúsi Yones í reggae-sveitinni AmabAdamA.

Óheflað málfar seldist vel á sínum tíma - nokkur lög á plötunni eru komin með yfir 100.000 áhorf á YouTube og 32c var mjög vinsælt band um skeið en síðan var eins og Davíð hafi bara horfið algjörlega af kortinu.

„Maður fór aðeins útaf brautinni þarna fyrir nokkrum árum. Ég er bara síðustu 3 árin búinn að vera að fókusa á það, fókusa á sjálfan mig, að koma sjálfum sér aftur inn í samfélagið. Laga sjálfið aðeins. Ég er bara búinn að vera að einbeita mér að því,“ segir Dabbi aðspurður að því hvað hann hafi verið að bauka þessi týndu ár, „en ég hef alltaf eitthvað aðeins verið að gera, kannski ekki að gera tónlist en ég er alltaf að hugsa texta og svona. Þetta er bara vani, maður er náttúrlega búinn að vera að gera þetta síðan maður var 14 ára.“

Dabbi T segir að síðustu þrjú ár sem hafi farið í að byggja sjálfan sig upp á ný eftir sukkið hafi gengið fullkomlega og að núna sé hann nýr maður, en við hverju má búast í þessu nýja lagi - verður þetta eins og gamli Dabbi T eða má búast við alveg nýjum manni?

„Það er bæði í bland. Ég er búinn að þroskast, þetta er ekki alveg eins mikið rugl og ég var að gera þegar maður var 17-18 ára. En þetta er dimmt og drungalegt og kannski ekki létt fyrir sumarið eins og það ætti kannski að vera. Það er minn stíll. Þetta er náttúrlega beint frá hjartanu og er svolítið uppgjör við lífið sem að maður var einu sinni að lifa.“

Að laginu kemur algjört einvalalið fagmanna en það er pródúserað af Helga Sæmundi úr hljómsveitinni Úlfur Úlfur, mixað og masterað af Redd Lights og myndbandinu er leikstýrt af Birgi Ólafi. „Það verða allskonar fígúrur og karakterar sem koma og taka þátt í myndbandinu. Ágúst Bent kemur þarna við sögu og Arnar í Úlfur Úlfur. Svo verða þarna fleiri kallar sem við látum ónefnda.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×