Innlent

Uppeldisaðferð skólameistarans í FG virkaði

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
"Hér er meira og minna fyrirmyndarfólk og það ganga langflestir vel um, en það eru alltaf einhverjir svartir sauðir og við það erum við að glíma.“
"Hér er meira og minna fyrirmyndarfólk og það ganga langflestir vel um, en það eru alltaf einhverjir svartir sauðir og við það erum við að glíma.“
 „Það hefur orðið mikil breyting til batnaðar og sú breyting hefur allavega dugað í þó nokkurn tíma,“ segir Kristinn Þorsteinsson, skólameistari í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, aðspurður hvort umgengni nemenda hafi skánað.

Ákveðið var að loka mötuneyti skólans í tvo daga fyrr á þessu ári vegna slæmrar umgengni nemenda við skólann. Um nokkurs konar uppeldisaðferð var að ræða, að sögn Kristins, sem gripið hefur verið til áður.

„Þetta er ein af þessum aðferðum sem notuð er í uppeldi. Við höfum gert þetta áður þar sem við lokuðum í tvo daga og það skilaði líka árangri. En við fáum nemendur á hverju hausti þannig að þetta gildir í einhvern tíma en ekki endalaust,“ segir Kristinn.

Hann segir vandamálið þó ekki úr sögunni. „Ég veit ekki um neinn stað þar sem eru fleiri hundruð ungmenni og umgengni er góð. Ef þú þekkir þann stað þá vildi ég gjarnan vita af honum. En umgengnin skánaði heilmikið og það er ekki kvartað eins og áður.“

Svartir sauðir alls staðar

Aðspurður segir Kristinn flesta framhaldsskóla glíma við sama vandamál. Þó hafi aðrir skólar ekki fylgt hans fordæmi. „Maður glímir við svona vandamál bara sem foreldri og það er ekki ástæða til að ætla annað en að staðan sé önnur en hún er hér. Hér er meira og minna fyrirmyndarfólk og það ganga langflestir vel um, en það eru alltaf einhverjir svartir sauðir og við það erum við að glíma.“

Þá segir hann plássleysi hluta vandamálsins. „Við erum með 600-700 nemendur á vorönn í plássi sem ætlað er 500 nemendum og það kallar svolítið á vandamál með umgengni,“ segir Kristinn og bætir við að vitundarvakningu um betri umgengni verði framhaldið.

„Við vorum með hreinsunardag á föstudag þar sem við fórum í kringum skólann, tíndum drasl og hreinsuðum alls staðar í kring. Svo var vígt hér nýtt útisvæði fyrir utan, en núna er vonandi nokkuð hreint og fínt í kringum skólann,“ segir Kristinn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×