Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Ekki hata leikmennina - hataðu grasið | Myndbönd

Fyrsta umferð Pepsi-deildar karla 2016 í knattspyrnu kláraðist í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu erfiðan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum nótum.

Eyjamenn eru á toppnum eftir fyrstu umferðina en þeir tóku Skagamenn í kennslustund, 4-0, á Hásteinsvelli. Misjafnt var gengi nýliðanna því Þróttur fékk 3-0 skell heima eftir hetjulega baráttu gegn FH en Ólafsvíkingar sóttu sigur í Kópavoginn. Áhugamönnum um deildina var tíðrætt um gervigras eftir að horfa upp á vondan leik KR og Víkings en þrír leikir umferðarinnar fóru fram á gervigrasi og spiluðust vel.

Umfjöllun og viðtöl úr öllum sex leikjum umferðarinnar:

Valur - Fjölnir 1-2

KR - Víkingur 0-0

Stjarnan - Fylkir 2-0

Breiðablik - Víkingur Ó.

ÍBV - ÍA 4-0

Þróttur - FH

Góð umferð fyrir ...

... Ólsara

Það tók Ólafsvíkinga heilar níu umferðir að vinna fyrsta leikinn í deildinni þegar liðið kom í fyrsta skipti upp um deild og spilaði með þeim bestu fyrir þremur árum síðan. Þeir stóðu af sér orrahríð Blika í seinni hálfleik og skoruðu tvö gullfalleg mörk sem tryggðu nýliðunum sigurinn. Svona sigur gefur mönnum mikla trú inn í mótið en það er augljóslega mjög erfitt að vinna ekki fyrsta leikinn fyrr en um miðbik móts.

... Þóri Guðjónsson

Þórir byrjaði mótið af krafti í fyrra og skoraði fimm af sjö mörkum sínum í fyrri umferðinni. Eftir smá meiðsli hægðist verulega á honum í seinni umferðinni en hann er að stimpla sig inn sem einn af bestu framherjum deildarinnar. Tvö mörk í 2-1 sigri og síðara markið kosið það besta í umferðinni í Pepsi-mörkunum. Vonandi fyrir hinn hógværa Þóri er þetta byrjunin á einhverju stóru fyrir hann og Fjölni.

... Team Gervigras

Þeir sem vilja fá gervigras á alla velli brostu hringinn þegar þeir horfðu upp á hörmungaraðstæðurnar sem KR og Víkingi var boðið upp á í vesturbænum. Eftir að horfa á þrjá flotta og hraða fótboltaleiki á sléttu og góðu undirlagi á gervigrasi var varla hægt að senda boltann á milli á Alvogen-vellinum. Sama hvað gamli skólinn rígheldur í graslyktina virðist alltaf styttast í að hér verði allt undir gervigrasi. Eins og kemur fram í umræðunni á Twitter hér að neðan eru fótboltaáhugamenn virkilega farnir að pæla í gervigrasi eftir að horfa á fyrstu umferðina.

Erfið umferð fyrir ...

... Þjálfara í banni

Tveir þjálfarar í deildinni; Arnar Grétarsson hjá Breiðabliki og Hermann Hreiðarsson hjá Fylki, voru í banni í fyrstu umferð Íslandsmótsins. Þeir þurftu báðir að horfa upp á lærisveina sína tapa úr stúkunni með aðstoðarþjálfarana að stýra liðunum. „Það er miklu erfiðara að vera í stúkunni,“ sagði Arnar Grétarsson við Vísi eftir tap Blika.

... Blika

Og talandi um Breiðablik. Silfurlið síðasta árs tapaði fyrir nýliðum Ólsara þrátt fyrir að fá nóg af færum til að skora. Jonathan Glenn byrjar mótið í tveggja leikja banni en liðið þurfti svo sannarlega á honum að halda í teignum. Markaskorun hefur reynst liðinu erfið í vetur og áframhald var á því. Tvær af skærustu stjörnum síðasta sumars; Oliver Sigurjónsson og Höskuldur Gunnlaugsson, áttu erfitt uppdráttar í leiknum.

... Skagamenn

Skagamenn sem styrktu sig ekkert fyrir mótið mættu Eyjamönnum sem voru með veskið á lofti og það voru Akurnesingar sem fengu vænan rassskell. Nýi markvörður Eyjamanna var frábær á meðan Árni Snær í marki Skagans varði varla skot og þrír nýir leikmenn skoruðu fyrir ÍBV á meðan Skaginn skoraði ekki mark. Þessi leikur er auðvitað alls enginn dómur yfir kaupstefnu ÍA en hlýtur að vera ákveðin áminning.

Tölfræðin og sagan:

*FH hélt hreinu í fyrstu umferð í fyrsta sinn í átta ár eða síðan í 1. umferð 2008.

*Síðastur FH-inga á undan Lennon til skora fyrsta mark Íslandsmótsins var Atli Viðar Björnsson í leik á móti KR 2004.

*Atlarnir (Viðar Björnsson og Guðnason) og Lennon skoruðu aldrei allir í sama leik í Pepsi-deildinni sumarið 2016.

*Eyjamenn urðu fyrsta liðið í ellefu ár til að skora þrjú mörk í fyrsta hálfleik tímabilsins eða síðan Valsmenn skoruðu þrjú mörk hjá Grindavík í fyrri hálfleik í 1. umferðinni 2005.

*Eyjamenn hafa nú leikið 25 deildarleiki í Eyjum í röð undir stjórn Bjarna Jóhannssonar án þess að tapa (22 sigrar og 3 jafntefli)

*Skagamenn fengu á sig fjórum sinnum fleiri mörk í fyrsta leik sumarsins 2016 (4) en í síðustu fimm leikjum liðsins sumarið 2015 (1).

*Gunnleifur Gunnleifsson var búinn að halda hreinu í 933 mínútur í fyrri hálfleik í Pepsi-deildinni þegar Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði hjá honum.

*Síðasta lið á undan Ólafsvíkingum til að skora í báðum hálfleikjum á móti Blikum voru KR-ingar 11. maí í fyrra.

*Ólafsvíkur-Víkingar voru 60 dögum fljótari að vinna fyrsta leik sinn á öðru tímabili félagsins í efstu deild en á því fyrsta fyrir þremur árum.

*Ingvar Þór Kale hefur spilað fimm leiki í 1. umferð Pepsi-deildarinnar frá 2010 (með Val, Víking og Breiðabliki) og verið í tapliði í þeim öllum. Ingvar hefur fengið á sig 11 mörk í þessum fimm tapleikjum en í einum þeirra fékk hann rautt spjald eftir 19 mínútur.

*Frá árinu 2003 hafa lið Ólafs Jóhannessonar aðeins náð í 1 stig af 9 mögulegum (11 prósent) þegar þau spila á heimavelli í 1. umferð í úrvalsdeildinni og 12 stig af 12 mögulegum (100 prósent) þegar þau spila á útivelli í 1. umferð í úrvalsdeildinni.

*Þórir Guðjónsson er búinn að skora í öllum þremur deildarleikjum sínum á Hlíðarenda síðan að hann fór frá Val (4 mörk í 3 leikjum).

*Veigar Páll Gunnarsson skoraði einu marki meira á fyrstu 17 mínútum sínum í Pepsi-deildinni 2016 en í öllum leikjum sínum í Pepsi-deildinni 2015.

*Sveinn Sigurður Jóhannesson hefur haldið Stjörnumarkinu hreinu í 5 af 6 leikjum sínum í Pepsi-deildinni. Sveinn Sigurður hefur aðeins fengið á sig 1 mark í þessum 6 leikjum.

*Þetta er í fyrsta sinn í heilan áratug sem KR-ingar ná ekki að skora í fyrsta leik sínum á Íslandsmótinu.

*Víkingar héldu síðast hreinu í útileik á móti KR 7. júlí 1984 en sá leikur fór fram á Laugardalsvellinum.

Skemmtilegir punktar úr Boltavaktinni:

Ingvi Þór Sæmundsson á Samsung-vellinum:

„Hemmi vinkaðu!" syngja Silfurskeiðungar. Hann hlýðir á endanum.

Kristinn Páll Teitsson á Hásteinsvelli:

„Geir Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri KSÍ er mættur til að fylgjast með fyrsta leik ÍBV í sumar. Hef ekki enn séð ljósu lokkana hans Heimis Hallgrímssonar.“

Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Þórir Guðjónsson, Val - 8

Simon Smidt, ÍBV - 8

Aron Bjarnason, ÍBV - 8

Davíð Þór Viðarsson, FH - 8

Gunnar Nielsen, FH - 8

Veigar Páll Gunnarsson, Stjörnunni - 8

Ingimundur Níels Óskarsson, Fylki - 3

Andrés Már Jóhannesson, Fylki - 3

Albert Brynjar Ingason, Fylki - 3

Þórður Þorsteins Þórðarson, ÍA - 3

Ármann Smári Björnsson, ÍA 3

Jón Vilhelm Ákason, ÍA 3

Umræðan á #pepsi365

Flottasta mark 1. umferðar: Þórir Guðjónsson Atvik 1. umferðar: Mark Kenans Turudija Öll mörkin úr 1. umferðinni:

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×