Íslenski boltinn

Uppbótartíminn: Björgunarhring kastað til Bjarna | Myndbönd

Bjarni Guðjónsson vann frábæran sigur á Val.
Bjarni Guðjónsson vann frábæran sigur á Val. vísir/anton brink
Sjötta umferð Pepsi-deildar karla 2016 í knattspyrnu kláraðist í gær. Hverjir áttu góðan dag og hverjir áttu erfiðan dag? Hvað segir tölfræðin og hver var umræðan á Twitter? Vísir gerir hér upp umferðina á léttum og gagnrýnum nótum.

Breiðablik tyllti sér á toppinn í Pepsi-deildinni með flottum 3-1 sigri á Stjörnunni en þar tapaði Garðabæjarliðið sínum fyrsta leik í sumar. FH tapaði óvænt stigum gegn nýliðum Ólsara sem halda áfram að heilla fótboltaáhugamenn. Víkingar úr Reykjavík unnu annan leikinn í röð en Þróttur, ÍA og Fylkir virðast hvað líklegust til að slást um fallið á þessu stigi mótsins.

Umfjöllun og viðtöl úr öllum leikjum umferðarinnar:

Stjarnan - Breiðablik 1-3

Fylkir - Fjölnir 2-2

FH - Víkingur Ó. 1-1

KR - Valur 2-1

Víkingur - ÍA 3-2

Þróttur - ÍBV 0-1

KR-ingar fagna marki Óskars Arnar Haukssonar.vísir/anton brink
Góð umferð fyrir ...

... Atla Sigurjónsson

Eftir þrjá byrjunarliðsleiki í röð var Atli settur á bekkinn gegn KR og var aftur á bekknum í stórleiknum gegn Stjörnunni. Síðhærði gleðigjafinn svaraði fyrir sig inn á vellinum og átti frábæra innkomu fyrir Oliver Sigurjónsson í byrjun seinni hálfleiks. Atli klikkaði ekki á sendingu, lagði upp dauðafæri og skoraði fallegt mark í flottum sigri. Arnar Grétarsson hefur nú um eitthvað að hugsa fyrir næsta leik gegn FH.

... Bjarna Guðjónsson

Sama hversu mikið KR-ingar reyna að berja það frá sér var auðvitað komin krísa í Frostaskjóli eftir arfadapra byrjun á sumrinu bæði í deild og bikar. En KR gerði vel gegn Val og Bjarni átti stóran þátt í því. Þjálfarinn gerði réttu breytingar, stillti liðinu rétt upp og spilaði rétta taktík. Í fyrra var hann skólaður til af Óla Jóh í þrígang en núna skilaði Bjarni mikilvægum sigri í hús og hellti vatni á heita sætið sitt til að kæla það aðeins.

... Ívar Örn Jónsson

Bakvörðurinn skoraði hálfgert flautumark gegn Skagamönnum og tryggði Víkingum mikilvægan sigur með fallegu skoti í uppbótartíma. Það sást á fagninu hvað þetta skipti Ívar og Víkingana miklu máli en þeir voru ekki búnir að tengja saman tvo sigra í deildinni síðan Milos Milojevic tók einn við liðinu í fyrra. Ívar átti góðan seinni hálfleik og kórónaði fína byrjun sína á sumrinu með þessu glæsilega marki.

Þróttarar töpuðu í Dalnum og misstu mann af velli.vísir/anton brink
Erfið umferð fyrir ...

... Fylkismenn

Allar umferðir eru reyndar búnar að vera erfiðar fyrir Fylkismenn sem eru eina liðið sem á eftir að vinna leik í Pepsi-deildinni. Árbæingar komast ekki nær því en gegn Fjölni þar sem þeir fengu á sig jöfnunarmark í uppbótartíma. Fylkismenn geta huggað sig við það að þeir eru að spila betur í síðustu tveimur leikjum en í byrjun móts en sú hugsun telur svo lítið þegar menn eru að svekkja sig á svona hlutum.

... Hall Hallsson

Enginn elskar Þrótt meira en Hallur Hallsson og því var leiðinlegt fyrir hann að vera rekinn af velli í þessari vitleysu sem kom upp gegn ÍBV. Hvort hann slái Maigaard í magann eða punginn skiptir engu máli. Menn eiga ekki að bjóða dómurunum upp á að geta rekið sig út af fyrir svona vitleysisgang.

... Anton Ara Einarsson

Markvörðurinn ungi hefur staðið sig vel frá því hann kom í Valsmarkið vegna meiðsla Ingvars Þórs Kale. Alvogen-völlurinn virtist þó vera aðeins of stórt svið fyrir hann að þessu sinni. Anton Ari átti að sjálfsögðu að verja aukaspyrnuna frá Óskari Erni og svo var hann í heildina óöruggur í leiknum. Hann lærir þó af þessu drengurinn.

Víkingar unnu dramatískan sigur á ÍA.vísir/anton brink
Tölfræðin og sagan:

*Derby Carrillo, markvörður ÍBV, varð fyrsti markvörðurinn sem nær að halda þrisvar sinnum hreinu í Pepsi-deildinni í sumar.

*Eyjamenn eru búnir að halda marki sínu oftar hreinu í síðustu tveimur útileikjum sínum í Pepsi-deildinni (2) en í öllum ellefu útileikjum sínum í fyrra (1).

*Þróttarar léku næstum því jafnlengi manni færi eftir þetta rauða spjald Halls Hallssonar (52 mínútur) og samanlagt eftir hin fjögur rauðu spjöld Halls frá 2012-2015 (56 mínútur).

*Skagamenn hafa enn ekki náð í stig á útivelli þrátt fyrir að hafa spilað fjóra af fyrstu sex leikjum sínum utan Akranes.

*Víkingurinn Óttar Magnús Karlsson hefur skorað 4 mörk á síðustu 203 mínútum sínum í deild og bikar eða mark á 50,8 mínútna fresti.

*Fyrsti heimasigur Víkinga á ÍA í efstu deild í tæp 36 ár eða síðan að Víkingur vann ÍA 3-0 á Valbjarnarvellinum 28. júlí 1980.

*KR hefur aldrei tapað tveimur deildarleikjum í röð undir stjórn Bjarna Guðjónssonar.

*KR vann í fyrsta sinn lið undir stjórn Ólafs Jóhannessonar í tæp þrettán ár eða frá því 8. júlí 2003.

*Haukur Páll Sigurðsson hefur skorað fleiri mörk í Pepsi-deildinni í fyrstu sex umferðunum í sumar (3) en samanlagt á tveimur tímabilum þar á undan (2).

*FH-ingar hafa fengið á sig jöfnunarmark á síðustu fjórum mínútunum í tveimur leikjum í röð í Pepsi-deildinni.

*Fyrsta sinn í fimm ár (maí 2011) sem FH-ingar gera jafntefli í tveimur leikjum í röð.

*Hrvoje Tokic hefur skorað í fimm leikjum í röð í Pepsi-deildinni í sumar eða í fleiri leikjum í röð en öll lið deildarinnar nema Valur og Stjarnan.

*Breiðablik í efsta sæti Pepsi-deildarinnar í fyrsta sinn síðan eftir fyrstu umferðina sumarið 2013.

*Stjarnan fékk á sig þrisvar sinnum fleiri mörk í seinni hálfleik á móti Blikum (3) en liðið var búið að fá á sig í fyrstu fimm leikjum liðsins í Pepsi-deildinni í sumar (1).

*Blikar skoruðu fleiri mörk í seinni hálfleiknum á móti Stjörnunni (3) en samanlagt í seinni hálfleik í fyrstu fimm leikjum liðsins í Pepsi-deildinni í sumar (2).

Finnur Orri Margeirsson með boltann í leik KR og Vals.vísir/anton brink
Skemmtilegir punktar úr Boltavaktinni:

Tómas Þór Þórðarson á Samsung-vellinum:

„Það er ekki mikil ást á milli þessara liða en þau hafa eldað grátt silfur saman undanfarin ár. Silfurskeiðin sat út á torgi fyrir leik og gerði sér glaðan dag og söng svo hressandi söngva um Blikana þegar þeir mættu til leiks. "Ellert, ekki skalla mig," og "Gulli er ekki í landsliðinu" mátti heyra Skeiðina syngja. Alvöru banter.“

Tryggvi Páll Tryggvason á Víkingsvelli:

„Fyrir þá sem vilja stemmarann beint í æð hér úr Víkinni er 3 Doors Down að skemmta lýðnum með laginu Kryptonite.“

Hæstu og lægstu einkunnir umferðarinnar:

Andri Rafn Yeoman, Breiðabliki - 8

Atli Sigurjónsson, Breiðabliki - 8

Garðar Jóhannsson, Fylki - 8

Indriði Sigurðsson, KR - 8

Finnur Orri Margeirsson, KR - 8

Nikolaj Hansen, Val - 2

Guðjón Pétur Lýðsson, Val - 3

Hans Viktor Guðmundsson, Fjölni - 3

Mario Tadejevic, Fjölnir - 3

Umræðan á #pepsi365

Mark 6. umferðar - Ívar Örn Jónsson, Víkingi Leikmaður 6. umferðar - Gunnleifur Gunnleifsson, Breiðabliki Atvik 6. umferðar - Rautt á Hall Hallsson Markasyrpa 6. umferðar

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×