Erlent

Uppblásnum froski líkt við leiðtoga

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Froskurinn (til vinstri) er sagður líkjast Jiang Zemin meira en góðu hófi gegnir.
Froskurinn (til vinstri) er sagður líkjast Jiang Zemin meira en góðu hófi gegnir. VÍSIR/AFP
Fréttir af stærðarinnar uppblásnum froski hafa nú verið fjarlægðir af kínverskum netmiðlum eftir að netverjar bentu á hversu mikið hann svipaði til fyrrverandi leiðtoga landsins.

Þetta kemur fram í frétt Sydney Morning Herald um málið.

Eftir að feiknarstórri uppblásinni önd var komið fyrir við hafnarstæði Hong Kong í fyrra greip mikið æði um sig í Kína og víðsvegar um landið spruttu upp alls kyns dýr og kynjaverur.

Froskurinn, sem er tuttugu og tveggja metra hár, var komið fyrir í almenningsgarði í höfuðborginni Peking og þegar fregnir tóku að berast af uppsetningu hans voru kínverskir netverjar ekki lengi að sjá líkindi með honum og fyrrverandi forseta landsins, Jiang Zemin.

Ýmsar fréttaveitur, þar á meðal opinbera fréttaveitan Xinhua, fjarlægðu fréttir af frosknum í dag af netsíðum sínum í kjölfar háðsins. Froskar eru vinsælir meðal Kínverja en þeir eru gæfumerki í kínverskri þjóðtrú.

Jiang  Zemin steig til hliðar sem forseti landsins árið 2002 en hefur enn mikil ítök í kínverska kommúnistaflokknum.

Froskurinn er 22 metra hár og gnæfir yfir almenningsgarðinn.Vísir/AFP
VÍSIR/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×