Lífið

Uppáhaldsleyndarmálið um Dr. Phil

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Þórdís segir að mörg leyndarmálanna hafi verið löng og dramatísk. Besta leyndarmálið hafi þó án efa verið játning á ólöglegu niðurhali á Dr. Phil.
Þórdís segir að mörg leyndarmálanna hafi verið löng og dramatísk. Besta leyndarmálið hafi þó án efa verið játning á ólöglegu niðurhali á Dr. Phil. vísir/arnþór
„Ég var alls ekkert viss um að fólk myndi taka vel í þetta en ég ákvað að slá til. Svo hrönnuðust bara inn leyndarmálin,“ segir Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, nemi í Myndlistaskólanum í Reykjavík, en útskriftarverkefni hennar frá skólanum vakti þó nokkra athygli.

„Ég var lengi búin að velta því fyrir mér hvað mig langaði að gera og hvað mér þótti áhugavert. Ég datt svo inn á leyndarmálin og fór að velta því fyrir mér af hverju manni þykja þau svona forvitnileg. Ég prófaði því að búa til hálfgerða könnun á netinu og bauð fólki að skrifa inn leyndarmálin sín, en þetta var algjörlega nafnlaust og án IP-tölu svo það var engin leið fyrir mig að rekja þetta,“ segir Þórdís, sem segir leyndarmálin hafa verið jafn misjöfn og þau voru mörg.

„Uppáhaldsleyndarmálið mitt kom frá einhverjum sem viðurkenndi ólöglegt niðurhal á Dr. Phil.“

Þórdís ákvað síðan að verða sér úti um gamlar appelsínflöskur, skrifa leyndarmálin niður á blöð og koma hverju og einu fyrir í flösku.

„Allir nemendur áttu að vera með innsetningu á lokaverkefnum sínum í skólanum svo ég sótti gamalt fiskinet og kom flöskunum þar fyrir. Hugmyndin var sú að leyndarmál væru stundum eins og flöskuskeyti, sum komast upp á yfirborðið en önnur ekki.“ Að sýningu lokinni fór Þórdís með flöskurnar niður í fjöru og kastaði þeim út í sjó. „Nú eru þau bara svamlandi um í sjónum, þessar elskur.“

Þórdís sótti gamalt fiskinet og kom flöskunum fyrir í netinu. Að sýningu lokinni var flöskunum kastað út í sjó.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×