Innlent

Unnur Brá íhugar framboð

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Unnur Brá liggur nú undir feldi.
Unnur Brá liggur nú undir feldi. vísir/daníel
Almennur félagsfundur í Sjálfstæðisfélaginu Kára í Rangárþingi eystra skoraði á Unni Brá í gær um að gefa kost á sér í embætti varaformanns flokksins en í gær tilkynnti Hanna Birna Kristjánsdóttir, núverandi varaformaður, að hún ætlaði ekki að gefa kost á áframhaldandi setu. Vísað hún til lekamálsins í því samhengi, en málið varð til þess að hún sagði af sér sem innanríkisráðherra síðastliðinn vetur.

Unnur Brá segir að henni þyki vænt um áskorunina.

„Þetta gerðist nú allt saman í gær að Hanna Birna ákvað að gefa ekki kost á sér en mér þykir afskaplega vænt um að fá þessa yfirlýsingu og þar kemur fram ósk eða krafa um breiða forystu í Sjálfstæðisflokknum. Það er einfaldlega eitthvað sem ég þarf að íhuga, hvort ég svari því kalli,“ segir hún.

Þannig þú hefur ekki tekið afstöðu eða ákvörðun um hvort þú gefir kost á þér eða ekki?

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um það en þessi ósk um breiða forystu, um að forysta flokksins endurspegli breiðan aldurshóp og eins bæði landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið, er eitthvað sem bæði ég og aðrir sjálfstæðismenn þurfa að íhuga,“ svarar hún.

Þannig að það kemur til greina að þú gefir kost á þér?

„Ég er að íhuga málið.“

Unnur Brá segir að það muni ekki ráða úrslitum um ákvörðun um framboð hverjir aðrir gefi mögulega kost á sér í embættið. Lagt hefur verið að Ólöfu Nordal innanríkisráðherra um að gefa kost á sér. Unnur Brá segist gera ráð fyrir því að fleiri Sjálfstæðismenn íhugi stöðu sína. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×