Lífið

Unnur Birna lætur ekki blekkja sig tvisvar

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Tónlistarkonan Unnur Birna Björnsdóttir ætlar að elta sólina til Ítalíu á nýjan leik.
Tónlistarkonan Unnur Birna Björnsdóttir ætlar að elta sólina til Ítalíu á nýjan leik. mynd/einkasafn
„Miðað við hvernig sumarið hér á landi var í fyrra, þá ætla ég ekki að láta blekkja mig á nýjan leik,“ segir tónlistarkonan Unnur Birna Björnsdóttir en hún heldur af stað í leit að sól og sumri til Ítalíu síðar í mánuðinum.

Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem hún fer suður á bóginn í leit að sól. „Ég bjó á Ítalíu í hálft ár fyrir tveimur árum. Ég ákvað svo bara að vera heima síðasta sumar, en það kom auðvitað ekkert sumar þannig að ég fer aftur til Ítalíu,“ segir Unnur Birna.

Hún segir það nauðsynlegt að komast í tæri við sól og sumaryl enda slíkt endurnærandi. Þegar hún bjó á Ítalíu samdi hún talsvert af tónlist og ætlar hún að leika hana á tónleikum í kvöld.

„Ég ætla flytja lög af þessari væntanlegu plötu, ásamt frábærri hljómsveit. Sum laganna verða frumflutt en önnur hafa þegar heyrst í útvarpi, eins og lagið Sober, sem nú er á ferð um heiminn með Ian Anderson og Jethro Tull.“

Tónlistarkonan Fabúla kemur einnig fram á tónleikunum sem fram fara á Café Rosenberg í kvöld og hefjast klukkan 21.00.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×