Innlent

Unnu 262 milljónir: Hélt að eiginmaðurinn hefði komið upp falinni myndavél

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Vinningsmiðinn var keyptur á N1 í Kópavogi.
Vinningsmiðinn var keyptur á N1 í Kópavogi. Vísir/GETTY
Stærsti vinningurinn í Víkingalottó sem komið hefur til Íslands endar í höndum ungra hjóna sem hafa látið sig dreyma um að eignast rúmgott húsnæði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslenskri getspá.

„Það var sérstaklega ánægjulegt að taka á móti ungu hjónunum sem komu til okkar í Getspá í morgun með miðann góða úr Víkingalottóinu í gær en á honum var vinningur upp á 261.876.840 krónur sem er jafnframt stærsti happdrættisvinningur Íslandssögunnar,“ segir í tilkynningu. 



Miðinn var keyptur í N1 við Stórahjalla í Kópavogi líkt og fram kom í gær en það er „lottósjoppa“ ungu hjónanna.  Þetta er í annað skiptið sem 1. vinningur í Víkingalottóinu kemur á miða sem er keyptur á þessum sölustað.  Fyrra skiptið var í október 2012 en þá kom þar vinningur upp á rúmar 103 milljónir.

„Eins og svo margir aðrir fengu þau sér bíltúr í veðurblíðunni í gær og keyrðu m.a. fram hjá fallegum húsum og létu sig dreyma um að geta keypt sér rúmbetra húsnæði en þau búa í lítilli íbúð í dag.  Ekki gat þeim dottið í hug að nokkrum tímum seinna yrðu þau orðin margmilljónamæringar en það var ekki fyrr en um kvöldið að eiginmaðurinn fór yfir miðann og sá hvers kyns var,“ segir í tilkynningunni.

„Hann kallaði á konuna en gat varla sagt henni fréttirnar út af stressi, hún trúði honum hins vegar ekki og leitaði um allt að falinni myndavél sem hún var alveg viss um að leyndist þarna einhversstaðar.  Það var svo ekki mikið um nætursvefn, hugurinn á flugi og áhyggjur af því að tína miðanum, hann var settur í veski sem var geymt innan seilingar og gengið úr skugga um að útidyrahurðin væri ekki örugglega læst.“

Hjónin hyggjast fara í fjármálaráðgjöf á vegum Getspár en að öðru leyti gátu þau lítið tjáð sig um framtíðarhorfur. „Draumurinn um stærra húsnæði verður látinn rætast fljótlega.“   


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×