Enski boltinn

United þrefaldaði tilboðið í Martial á einni viku

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anthony Martial með treyju Manchester United.
Anthony Martial með treyju Manchester United. vísir/getty
Manchester United átti stærstu kaupin á lokadegi félagaskipta á þriðjudaginn, en félagið gekk frá kaupum á franska sóknarmanninum Anthony Martial frá Monaco AS.

Kaupin komu verulega á óvart þar sem Martial er ekki þekktasti fótboltamaðurinn í bransanum, en hann er nú orðinn dýrasti unglingur fótboltasögunnar.

Vadim Vasilyev, varaforseti Monaco, staðfestir í viðtali við enska blaðið The Sun í dag að á endanum getur Martial kostað Manchester United 58 milljónir punda (11,4 milljarða króna) þegar árangurstengdum greiðslum er bætt við upphaflegt verð (36 milljónir punda - sjö milljarða króna).

Vasilyev segir að ekki sé hægt að koma í veg fyrir að bresk lið kaupi leikmenn eins og Martial þar sem þau hafa yfir svo miklum peningum að ráða.

„Upphaflega var Martial ekki til sölu. Það kom ekki til greina,“ segir Vasilyev, en hann bætir við að félagið gat ekki hafnað tilboði United þegar það var búið að þrefaldast frá fyrsta tilboði.

„Bara síðan í síðustu viku hækkaði United tilboðið sitt nokkrum sinnum; 21,6, 28,8, 36 milljónir og meira að segja 50,4 með bónusum.“

„Á sunnudaginn fékk leikmaðurinn svo tilboð sem hann gat ekki hafnað. Hann bað okkur um að finna lausn á málinu og á mánudaginn fengum við tilboð sem við gátum ekki hafnað. Þetta er alveg einstakt. Þetta er verð sem félög eru að borga fyrir leikmenn eins og Suárez eða Neymar - bestu leikmenn heims,“ segir Vadim Vasilyev.


Tengdar fréttir

United staðfestir kaupin á Martial

Manchester United hefur gengið frá kaupum á Anthony Martial frá Monaco á fjögurra ára samningi, en hann er einungis nítján ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×