Enski boltinn

United staðfestir komu Schweinsteiger og Schneiderlin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Manchester United
Manchester United hefur gengið frá kaupum á þeim Morgan Schneiderlin frá Southampton og Bastian Schweinsteiger frá Bayern München.

Schweinsteiger yfirgefur nú Bayern eftir sautján ára dvöl hjá félaginu þar sem hann hefur unnið nánast alla titla sem félagið hefur keppt um.

„Það kom aðeins til greina að yfirgefa Bayern München til að fara til Manchester United. Þetta er ný og spennandi áskorun fyrir mig. Enska deildin er sú erfiðasta í heimi og ég hlakka til að starfa með Louis van Gaal (knattspyrnustjóra) aftur,“ sagði Schweinsteiger í viðtali á heimasíðu United.

Schweinsteiger, sem er þrítugur, átti eitt ár eftir af samningi sínum við Bayern sem seldi hann fyrir 14,4 milljónir punda, jafnvirði tæplegra þriggja milljarða króna. Schneiderlin, sem er 25 ára, var öllu dýrari en talið er að hann hafi kostað United um 25 milljónir punda, um 5,2 milljarða króna.

Schneiderlin skrifaði undir fjögurra ára samning við félagið en þess má geta að United hefur þegar í sumar fest kaup á þeim Memphis Depay og Matteo Darmian.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×