Enski boltinn

United gæti slegið met City strax í janúar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mats Hummels er einn besti miðvörður heims þegar hann er heill.
Mats Hummels er einn besti miðvörður heims þegar hann er heill. vísir/getty
Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, íhugar þessa dagana hvort hann eigi að gera þýska liðinu Dortmund tilboð í miðvörðinn Mats Hummels, að því fram kemur í frétt Guardian í dag.

Manchester United þarf líkega að bæta met samborgara sinna í Manchester City til að fá Dortmund til að selja Hummels, en hann gæti kostað United vel yfir 40 milljónir punda.

City setti nýtt met í kaupum á dýrasta varnarmanni ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi í sumar þegar það borgaði Porto 32 milljónir punda fyrir Frakkann Eliaquim Mangala.

Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, sagði á símafundi í vikunni þegar fyrsti ársfjórðungur nýs fjármálaárs var gerður upp, að félagið myndi engan kaupa nema það gæti fengið leikmenn sem eru á listanum fyrir næsta sumar.

Einn þeirra er Mats Hummels sem á tvö ár eftir af samningi sínum við Dortmund næsta sumar. Þýska liðið er því í fínni samningsstöðu og getur fengið toppverð fyrir leikmanninn sem varð heimsmeistari með Þýskalandi í sumar.

Hummels hefur verið mikið meiddur síðan að heimsmeistaramótinu lauk og þá hefur hann ekki verið jafn öflugur og áður við upphaf nýs tímabils. Dortmund er í fjórða neðsta sæti þýsku 1. deildarinnar með aðeins tíu stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×