Enski boltinn

United færist nær kaupum á mótherja íslenska landsliðsins í sumar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Renato Sanches er á leið til Manchester United.
Renato Sanches er á leið til Manchester United. vísir/getty
Það virðist alveg klárt að Manchester United mun kaupa portúgalska táninginn Renato Sanches þegar félagaskiptaglugginn opnar í sumar, en enska blaðið Daily Mail greinir frá því að forseti Benfica, sem Sanches spilar fyrir, hafi verið í Lundúnum í gær að ganga frá málum.

Í febrúar fullyrtu stærstu fjölmiðlar Portúgals að Manchester United og Benfica væru búin að gera með sér heiðursmannasamkomulag um sölu Sanches sem er aðeins 18 ára gamall.

Þessi ungi miðjumaður er talinn einn af efnilegustu leikmönnum Evrópu en hann er fastamaður í byrjunarliði Benfica sem er með tveggja stiga forskot á toppnum í portúgölsku úrvalsdeildinni.

Fernando Santos, landsliðsþjálfari Portúgals, kallaði Sanches inn í landsliðshópinn í fyrsta sinn í mars á þessu ári þar sem hann mætti Búlgaríu og Belgíu. Talið er nokkuð öruggt að Sanches fari með Portúgal á Evrópumótið í Frakklandi þar sem það mætir strákunum okkar í fyrsta leik í St. Étienne 14. júní.

Manchester United er sagt borga 31 milljón punda fyrir Sanches til að byrja með en árangurstengdar greiðslur geta svo numið allt að fimmtán milljónum punda. Heildarverðið á leikmanninum verður því 46 milljónir punda eða ríflega átta milljarðar íslenskra króna.

Manchester United er þess utan sagt áhugasamt um að klófesta gabonska framherjann Pierre-Emerick Aubameyang frá Dortmund en ahnn er metinn á 70 milljónir punda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×