Enski boltinn

United eyðir til að vinna

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Létt yfir Rooney með Giggs á æfingu í lok vikunnar
Létt yfir Rooney með Giggs á æfingu í lok vikunnar vísir/getty
Wayne Rooney fyrirliði Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta segir liðið eyða peningum til að vinna titla og ekkert annað komi til greina.

Líklegt er að Rooney leiði stjörnuprýtt og nýtt lið Manchester United út í dag þegar liðið tekur á móti QPR klukkan 15 í dag í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Telja verður líklegt að nýju leikmennirnir Radamel Falcao, Angel Di Maria, Marcos Rojo og Daley Blind verði í byrjunarliði United í dag auk Ander Herrera verði hann heill en liðið eyddi 151 milljón punda í leikmannakaup í sumar.

„Við vissum að við gætum alltaf fengið leikmenn í hæsta gæðaflokki til United en þetta snérist allt um að fá þá leikmenn til liðsins sem þjálfarinn vildi,“ sagði Wayne Rooney.

„Við vitum að við vorum ekki nógu góðir í fyrra. En nú er rétti tíminn til að ná í þessa frábæru leikmenn til að koma okkur þangað sem við eigum heima, á toppinn.

„Þetta eru spennandi og áhugaverðir tímar fyrir United. Falcao er heimsklassa leikmaður sem ég hlakka til að vinna með,“ sagði Rooney sem fór beint á Youtube eftir að United gekk frá kaupunum á Falcao til að skoða mörk kólumbíska framherjans.

„Auðvitað vildi ég sjá mörkin hans en ég þekki hann vel eftir að hafa séð hann spila með Atletico Madrid. Þetta er spennandi fyrir okkur hjá United og líka fyrir ensku úrvalsdeildina.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×