Erlent

UNICEF hefur fræðsluátak fyrir úkraínsk börn um jarðsprengjur

Atli Ísleifsson skrifar
Börn eru í sérstakri hættu vegna sprengivopna, sem oft eru skær að lit, forvitnileg í útliti og nógu létt til að börnin geti handleikið þau.
Börn eru í sérstakri hættu vegna sprengivopna, sem oft eru skær að lit, forvitnileg í útliti og nógu létt til að börnin geti handleikið þau. Vísir/AFP
UNICEF hefur hrundið af stað fræðsluátak í austurhluta Úkraínu þar sem fleiri en 500 þúsund börnum og fjölskyldum þeirra eru veittar lífsnauðsynlegar upplýsingar um þá hættu sem stafar af jarðsprengjum og ósprungnum sprengjum.

Að minnsta kosti 42 börn hafa látist og 109 börn særst alvarlega vegna jarðsprengja og annarra ósprunginna sprengjuvopna í héruðunum Donetsk og Luhansk í austurhluta Úkraínu frá því að átök brutust út fyrir um ári.

Í tilkynningu frá UNICEF segir að tölulegar upplýsingar frá stjórnvöldum endurspegli þó ekki endilega réttan fjölda þeirra barna sem hafi látið lífið eða særst vegna slíkra vopna. „Opinbera talan yfir fjölda þessara barna væri að öllum líkindum mun hærri ef þau svæði sem uppreisnarmenn ráða yfir væru tekin með í reikninginn,“ segir Marie-Pierre Poirier, talskona UNICEF fyrir Mið- og Austur-Evrópu.

„Átökin í Úkraínu hafa nú staðið yfir í rúmt ár. Íbúar margra samfélaga í austurhluta landsins hafa upplifað harkalegt ofbeldi, þar á meðal stórskotaliðsárásir sem hafa skilið eftir sig mikla eyðileggingu. Í héruðunum Donetsk og Luhansk hafa 33.717 ósprungnar sprengjur fundist og verið gerðar óvirkar. Fjölskyldur, sem lent hafa á vergangi vegna átakanna og hafa nú snúið aftur heim,  eru í mikilli hættu í þeim þorpum og bæjum þar sem leit að ósprungnum sprengjum hefur enn ekki verið lokið.

Skærar að lit og forvitnilegar í útliti

Börn eru í sérstakri hættu vegna sprengivopna, sem oft eru skær að lit, forvitnileg í útliti og nógu létt til að börnin geti handleikið þau.  Börn halda þess vegna oft að um leikföng sé að ræða eða verðmæta hluti.

UNICEF hefur hrundið af stað fræðsluátaka í austurhluta Úkraínu þar sem fleiri en 500.000 börnum og fjölskyldum þeirra eru veittar lífsnauðsynlegar upplýsingar um þá hættu sem stafar af jarðsprengjum og ósprungnum sprengjum. Útvegað er prentað fræðsluefni, efni á myndbandsformi og í gegnum stafræna miðla en jafnframt hafa 100 kennarar og skólasálfræðingar fengið fræðslu um hvernig brýna megi fyrir börnum að forðast jarðsprengjur.

„Þar til nú hefur lítil vitneskja verið um þær hættur sem jarðsprengjur og ósprungnar sprengjur geta valdið, á svæðum þar sem  átök hafa geisað en eru nú í rénun,“ segir Poirier. „Þess vegna vinnum við ásamt samstarfsaðilum okkar að því að auka vitund fjölskyldna um hættuleg sprengjuvopn sem enn eru til staðar í samfélögunum.“

Fleiri en 5 milljónir fólks í Úkraínu eiga um sárt að binda vegna átakanna, þar af eru 1,7 milljónir barna. 1,1 milljón manns er á vergangi innan landsins vegna ofbeldisins,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×