Skoðun

Ungur nemur, gamall … skuldar?

Guðlaug Kristjánsdóttir skrifar
Íslenska námslánakerfið þarfnast heildstæðrar endurskoðunar. Greiðslubyrði vegna námslána nemur nú um þriggja vikna launum ár hvert. Endurgreiðslutími hefur verið að lengjast, eftir að horfið var frá því fyrirkomulagi að fella niður lánin eftir tiltekinn tíma frá lokum náms, eða við tiltekinn aldur.

Það tekur í pyngjuna að þurfa að ráðstafa hátt í eins mánaðar launum í afborganir af námsláni. Afborganirnar eru tekjutengdar, þannig að laun hafa bein áhrif á það hve mörg ár tekur að greiða lánin upp. Háar tekjur kljúfa lánið hraðar en lágar. Því lægri sem tekjur fólks eru miðað við upphæð láns, því fleiri ár spanna afborganirnar. Er það þjóðfélagslega eðlileg staða, að lágtekjufólk beri skuldir af námi almennt lengur en aðrir? Í landi þar sem kynbundinn launamunur er viðvarandi, getur slíkt ástand þýtt að konur beri námsskuldir að jafnaði lengur en karlar. Viljum við það?

Nú er svo komið að námsskuldir fylgja fólki inn í ellina. Ekki bara út starfsævina, heldur lífið allt. Hvenær var sú ákvörðun tekin að það væri æskilegt? Líklegast aldrei, enda falla heimildir til undanþágu frá afborgunum vegna bágrar fjárhagsstöðu til dæmis niður þegar lífeyrisaldri er náð. Þannig fer öryrki sem hefur verið undanþeginn greiðslum aftur að fá til sín greiðsluseðla þegar hann breytist í lífeyrisþega. Lög gera með öðrum orðum ekki ráð fyrir því að aldraðir skuldi námslán.

BHM gerir athugasemdir við það verklag að veita stuðning vegna barneigna á námsárum á formi hækkaðs láns sem síðan þarf að greiða til baka. Almennt eru ekki gerðar kröfur um endurgreiðslur barnabóta til samfélagsins, nema í gegnum skatta. Svipað má segja um húsnæðisstuðning, sem einnig er veittur á formi hækkaðs láns til námsmanna. Hærra lán lengir greiðslutíma, þannig að sú staða getur komið upp að fólk sé í raun enn að greiða til baka húsnæðis- og barnabætur um áttrætt. Og þá helst kannski gamlar konur.

Lenging endurgreiðslutíma endurspeglar að lokum þá staðreynd að laun háskólamenntaðra á Íslandi vega ekki upp tilkostnað við öflun menntunar. Það dæmi gengur ekki upp og því þarf að breyta.

Allar ákvarðanir, hvort sem þær birtast í aðgerðum eða aðgerðaleysi eru stefnumótandi. Nú er þörf á markvissri skoðun á námslánakerfi Íslendinga þannig að það komist í sómasamlegt horf.




Skoðun

Sjá meira


×