Viðskipti innlent

Ungt fólk í skuldafeni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Húsnæði umboðsmanns skuldara.
Húsnæði umboðsmanns skuldara. vísir/vilhelm
Hlutfall ungs fólks sem leitar til umboðsmanns skuldara hefur vaxið verulega frá bankahruni og tekið kipp í ár. Ástæðan er vandræði vegna neysluskulda. „Já, við erum að sjá þennan hóp stækka hjá okkur og hópurinn sem er að leita til okkar hefur breyst mikið,“ segir Ásta Sigrún Helgadóttir, umboðsmaður skuldara. Á sama tíma og fleiri leiti til stofnunarinnar vegna neysluskulda komi færri vegna fasteignalána.

Ásta hefur áhyggjur af því úrvali tilboða sem er á markaðnum í dag þar sem fólk er hreinlega hvatt til skuldsetningar, til dæmis með Netgíró. „Maður hefur áhyggjur af því miðað við fortíðina,“ segir hún.

Sjá einnig:Íslendingar í sérflokki þegar kemur að kreditkortum

Þá hefur hún áhyggjur af mikilli neyslu fyrir jólin og hvað hún geri eftir hátíðarnar. „Fólk þarf að stíga varlega til jarðar,“ segir hún og varar við tilboðum sem feli nánast í sér að fólk geti frestað greiðslum vegna jólanna. „Það kostar alltaf að taka lán, sama í hvaða formi það er. Hvort sem það er yfirdráttarheimild eða raðgreiðslur. Fólk þarf að kynna sér vel alla skilmála og hvað þetta í raun og veru kostar. Það þarf að gera áætlun,“ segir hún.

Rannsóknarsetur verslunarinnar birti spá um jólaverslun undir lok síðustu viku. Þar segir að gert sé ráð fyrir að jólaverslun aukist um 10,3 prósent frá síðasta ári og að velta í smásöluverslun verði um 85 milljarðar króna án virðisaukaskatts í nóvember og desember. Það yrði mesti vöxtur í jólaverslun á milli ára frá bankahruninu.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×