Erlent

Unglingspiltar hlógu á meðan maður drukknaði

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Drengirnir tóku myndband í stað þess að koma manninum til bjargar.
Drengirnir tóku myndband í stað þess að koma manninum til bjargar. Vísir/getty
Hópur táningsdrengja á aldrinum fjórtán til sextán ára tóku upp myndskeið á meðan hinn 31 árs gamli Jamel Dunn, drukknaði í tjörn í Flórída í Bandaríkjunum 9. júní síðastliðinn. Þetta kemur fram á vef Guardian.

Dunn, sem var fatlaður, sést á myndskeiðinu grátbiðja um hjálp. Drengirnir neituðu honum um aðstoð og hlógu að honum. Á meðan Dunn barðist fyrir lífi sínu í tjörninni heyrðust táningsdrengirnir hæðast að honum. Þeir sögðu honum að hann myndi deyja og ennfremur að þeir ætluðu sér ekki að koma honum til aðstoðar.

Búið er að finna drengina og yfirheyra þá. Phil Archer hjá Embætti ríkissaksóknara í Flórída sagði upphaflega að drengirnir hefðu ekki brotið lög með athæfi sínu því það varði ekki við lög að hjálpa fólki ekki í neyð. Eftir að hávær umræða skapaðist um málið kvað við annan tón hjá Archer. Nú hafa yfirvöld í Flórída gefið út yfirlýsingu um að unglingspiltarnir verði ákærðir fyrir að hafa búið yfir vitneskju um andlát Jamels Dunn án þess að gera yfirvöldum viðvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×