Innlent

Ungir sjálfstæðismenn kjósa nýjan formann - rafmagnað andrúmsloft

Þingið er haldið á Hótel Örk.
Þingið er haldið á Hótel Örk.
Hundruð manna eru samankomnir í Hveragerði til þess að kjósa á sambandsþingi Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS).

Þingið er haldið á Hótel Örk og hófst á föstudaginn. Tveir bjóða sig fram til formanns Sambandsins. Annars vegar Davíð Þorláksson og svo Björn Jón Bragason, sem vakti mikla athygli á dögunum fyrir framboðsmynd sem hann lét taka af sér við aðstæður sem fólki þótti heldur formlegar. Sjálfur sagði hann ljósmyndarann hafa sótt andagift í ljósmynd af John F. Kennedy, forseta Bandaríkjanna.

Það er ljóst að það verður hart barist um formannsembættið, en Ólafur Örn Nielsen, fráfarandi formaður gaf ekki kost á sér aftur. Hann var kjörinn á landsþingi SUS sem var haldið á Ísafirði en þær kosningar voru gagnrýndar harðlega af andstæðingum hans þar sem því var haldið fram að hann hefði smalað kjósendum til Ísafjarðar með full miklu offorsi.

Þá hefur Björn Jón gagnrýnt stjórn SUS og sakað þá um að hafa staðið með óeðlilegum hætti að utanumhaldi um lista yfir þingfulltrúa á sambandsþinginu. Þessu neitar stjórnin alfarið.

Vísir ræddi við ungan sjálfstæðismann á þinginu sem sagði andrúmsloftið rafmagnað og mikil spenna lægi í loftinu.

Samkvæmt upplýsingum frá SUS þá hefst kosningin klukkan 13:30 og lýkur um klukkustund síðar. Úrslit ættu að vera kunngerð laust fyrir klukkan þrjú.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×