Innlent

Ungir sem aldnir brjóta bein í fljúgandi hálku

Jakob Bjarnar skrifar
Fljúgandi hálka myndast þegar rignir á svellalög og bunka. Margir leita nú á slysadeild.
Fljúgandi hálka myndast þegar rignir á svellalög og bunka. Margir leita nú á slysadeild. visir/stefan
Fljúgandi hálka er nú á höfuðborgarsvæðinu og verulegar annir á slysadeild, þangað sem þeir leita sem detta og slasa sig. Vakthafandi læknir á slysadeild er Hjalti Már Björnsson.

„Það hefur verið nokkuð um það í dag að fólk hafi komið til okkar, raunar eins og alla daga í vetur; fylgir því alltaf að þegar er hálka kemur fólk með brot eftir það. Viljum við hvetja fólk eindregið til að fara varlega og nota mannbrodda í hálkuna,“ segir Hjalti.

Svellalög eru víða og þegar rignir yfir það er erfitt að fóta sig. Spurður segir Hjalti þetta fremur eldra fólk sem lendi í hálkuslysum. „En hálkuslys gerast líka hjá yngra fólki sem passar sig ekki og heldur að það sé styrkara á fótum en það er. Það eru alveg dæmi um að ungt fólk detti í hálkunni og brjóti sig. Við mælum með því að sem flestir noti mannbrodda þegar svona mikil hálka er.“

Þó umhleypingar hafi verið í vetur treystir Hjalti sér ekki til að segja að veturinn hafi verið óvenju slæmur nú, en í fyrra mynduðust einnig mikil svellalög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×