Innlent

Ungir ökumenn aka áberandi hraðast

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fáir ökumenn verða varir við eftirlit lögreglu.
Fáir ökumenn verða varir við eftirlit lögreglu. vísir/anton
Fjórðungur ökumanna yngri en 24 ára segist aka hraðar en 101 km/klst. á þjóðvegum landsins að jafnaði. Þrír af hverjum fjórum í sama aldurshópi segjast aka yfir leyfilegum hámarkshraða að jafnaði.

Þetta má lesa úr niðurstöðum könnunar á umferðarhegðun almennings sem Gallup framkvæmdi fyrir Samgöngustofu. Slík könnun hefur verið gerð árlega frá árinu 2005.

Niðurstöðurnar eru að mestu svipaðar og síðustu ár. Hlutfall þeirra sem aka á yfir 90 km/klst. að jafnaði lækkar lítillega á milli ára en hlutfall þeirra sem aka á yfir 100 km/klst. hækkar, er nú sjö prósent og hefur aldrei verið hærra. Meðalhraði hækkar lítillega og er tæplega 96 km/klst.

Könnunin sýnir einnig að konur bera meiri virðingu fyrir hámarkshraða en rúmlega helmingur kvenna segist halda sig fyrir innan 90 km/klst. Hjá körlum er hlutfallið 43 prósent. Úr slysaskýrslum undanfarinna ára má lesa að jafn miklar líkur eru á að kona valdi slysi og karl. Slys af völdum karlkyns ökumanna eru hins vegar líklegri til að vera alvarleg.

Um helmingur ökumanna verður sjaldan eða aldrei var við eftirlit lögreglu. Það hlutfall hefur hækkað töluvert frá árinu 2013 en þá var það 36 prósent. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×