Erlent

Ungfrú Kanada meinaður aðgangur að Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Anastasia Lin, ungfrú Kanada.
Anastasia Lin, ungfrú Kanada. Vísir/Getty

Ungfrú Kanada, Anastasiu Lin, hefur verið meinaður aðgangur að Kína þar sem hún á að keppa í ungfrú heimur. Lin er meðlimur í Falun Gong samtökunum sem eru ólögleg í Kína og hún hefur gagnrýnt trúmálastefnu stjórnvalda í Kína. Hún segir sjálf frá þessu á Twitter og notar kassamerkið #AfraidOfABeautyQueen, eða hræddir við fegurðardrottningu.

Hún er nú í Hong Kong þar sem henni var tilkynnt að hún fengi ekki vegabréfsáritun á meginlandi Kína.

Lin hefur mótmælt stefnu stjórnvalda í Kína varðandi trúmál og mannréttindi opinberlega. Samkvæmt frétt CBC í Kanada sagði hún þingmönnum í Kanada í sumar að tugir þúsunda meðlima í Falun Gong hefðu verið myrtir í Kína og líffæri þeirra seld til ígræðslu.

Lin flutti frá Kína til Kanada þegar hún var þrettán ára gömul og starfar sem leikkona í Toronto. Hún hefur sagt frá því að eftir að hún var krýnd ungfrú Kanada heimsóttu útsendarar stjórnvalda föður hennar sem býr enn í Kína og með því hafi þeir reynt að hræða hana til þagnar.

Hún hafði ekki fengið þátttökubréf frá aðstandendum Miss World en ákvað samt að reyna að komast til Kína. Lin sagði áður en hún fór að yfirvöld í Kína væru að reyna að koma í veg fyrir að hún fengi að tjá sig um mannréttindi þar í landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×