Innlent

Ungar konur til áhrifa: Sópuðu til sín nokkrum mikilvægustu embættunum

Snærós Sindradóttir skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Una Hildardóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Una Hildardóttir
Þetta er ár ungra kvenna í stjórnmálum, ef svo má að orði komast. Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær var nær öllum sem stigu í pontu tíðrætt um unga fólkið og það berum orðum sagt að til að auka fylgi flokksins yrði að höfða til ungu kynslóðarinnar að nýju. Unga fólkið eru þeir kjósendur sem eru mest á flakki og erfiðast er að halda í.

En það eru fleiri flokkar sem eiga í fylgisvanda og fleiri flokkar horfa til unga fólksins í von um aukið fylgi.

Landsfundur Vinstri grænna á Selfossi kaus Unu Hildardóttur sem gjaldkera hreyfingarinnar í gær. Una hefur starfað með ungliðahreyfingu Vinstri grænna síðan 2011 og vakið athygli í flokknum. Una er 24 ára gömul, fædd árið 1991 og hefur meðal annars verið talskona Feministafélags Íslands.

Þá skrifuðu fjölmargir undir áskorun til Daníels Hauks Arnarsonar, 25 ára starfsmanns Vinstri grænna, þess efnis að hann ætti að bjóða sig fram til varaformanns. Hann varð þó ekki við áskoruninni og Björn Valur Gíslason fyrrverandi þingmaður var endurkjörinn.

Í gær tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir framboð sitt til embættis ritara Sjálfstæðisflokksins á móti Guðlaugi Þór Þórðarsyni. Áslaug er 25 ára laganemi og fyrrverandi formaður Heimdallar, Reykjavíkurfélags ungra Sjálfstæðismanna. 

Guðlaugur Þór dró framboð sitt til baka í beinni útsendingu við Ríkisútvarpið í gærkvöldi. Áslaug er því ein í framboði til embættis ritara en allir landsfundarmenn eru í kjöri. Samkvæmt heimildarmönnum Vísis er Áslaug vinsæl innan flokksins og má eiga von á virkilega góðri kosningu í dag. 

Sema Erla Serdar, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar.
Fyrr á þessu ári kaus landsfundur Samfylkingarinnar hina 29 ára gömlu Semu Erlu Serdar sem formann framkvæmdastjóra flokksins. 

Það var árið 2003 sem Katrín Jakobsdóttir, þá 27 ára gömul, var kjörin varaformaður Vinstri grænna á landsfundi flokksins í Hveragerði. Seinna varð hún menntamálaráðherra og formaður Vinstri grænna. Það er líklegt að ungu konurnar sem nú ná framgangi innan Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar séu framtíðarleiðtogar sinna flokka og þær konur sem koma til með að stýra landinu með einum eða öðrum hætti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×