Viðskipti innlent

Undrast launahækkun framkvæmdastjóra KEA

Sveinn Arnarsson skrifar
Sóley Björk Stefánsdóttir
Sóley Björk Stefánsdóttir
Árslaun Halldórs Jóhannssonar, framkvæmdastjóra KEA, hækkuðu á síðasta ári um fjórðung. Heildarlaun hans námu 23,6 milljónum króna og hækkuðu um 450 þúsund krónur á mánuði. Sóley Björk Stefánsdóttir, formaður Akureyrardeildar KEA, undrast þessa launahækkun.

„Þetta eru gríðarlega há laun og vanhugsaður tími fyrir svo mikla launahækkun. Hafa ber í huga að KEA er í eigu þúsunda félagsmanna og eðlilegt að stjórn KEA rökstyðji svo mikla hækkun launa framkvæmdastjóra.“

Birgir Guðmundsson, formaður stjórnar KEA, segir þessa hækkun launa eiga sér eðlilegar skýringar. Framkvæmdastjórinn hafi setið eftir í kjörum og félagið verði að borga samkeppnishæf laun fyrir lykilstarfsmann eins og Halldór er.

„Samningur við framkvæmdastjóra var tekinn upp í ársbyrjun 2014 og endursamið um launakjör. Tekið var mið af þróun launavísitölu og launum og kjörum í svipuðum störfum. Þetta leiddi til þess að laun hans hækkuðu talsvert,“ segir Birgir.

„Ástæða hækkunarinnar var sú að langt var liðið frá því að grundvallarráðningarkjör framkvæmdastjóra voru síðast endurskoðuð, en það var gert árið 2007. Hann hafði því í raun setið talsvert eftir í kjörum. Félagið verður einfaldlega að greiða samkeppnishæf laun, ekki síst þegar um verðmætan lykilstarfsmann er að ræða.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×