Erlent

Undirbúa lögleiðingu landtökubyggða í Palestínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Um fjögur þúsund heimili sem hafa verið byggð á umdeildu landi yrðu löglegar ef frumvarpið yrði samþykkt.
Um fjögur þúsund heimili sem hafa verið byggð á umdeildu landi yrðu löglegar ef frumvarpið yrði samþykkt. Vísir/AFP
Ísraelska þingið undirbýr nú að fjalla um lagafrumvarp sem myndi lögleiða landtökubyggðir á Vesturbakkanum. Menntamálaráðherra landsins, Naftali Bennet, sem frumflutti frumvarpið, segir það fyrsta liðinn í innlimun mest alls þess svæðis sem Ísraelar og Palestínumenn deila um.

Samkvæmt frumvarpinu yrðu um fjögur þúsund heimili, sem alþjóðalög segja ólöglega byggð, lögleg.

Frumvarpið á eftir að fara í gegnum þrjár umræður á þinginu. Önnur útgáfa af frumvarpinu hefur áður komist á sama stig, en deilur um landtökubyggðina Amona urðu til þess að frumvarpið komst ekki lengra. Sá kafli hefur nú verið fjarlægður úr frumvarpinu en til stendur að tæma Amona þann 25. desember.

Samkvæmt Times of Israel hafa Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Evrópusambandið komið fram athugasemdum varðandi frumvarpið. Meðal annars segja Sameinuðu þjóðirnar að það brjóti gegn alþjóðalögum.

Þrátt fyrir að frumvarpið hafi komist í gegnum fyrsta skref ísraelska þingsins, Knesset, og ef það færi í gegnum allar umræðurnar þrjár, telja greinendur að Hæstiréttur Ísrael myndi koma í veg fyrir að það yrði að lögum. Dómsmálaráðherra landsins hefur varað við því að frumvarpið brjóti gegn alþjóðalögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×