Erlent

Undirbúa hertar aðgerðir gegn Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Um er að ræða eldflaug sem gæti dregið að herstöðvum Bandaríkjanna í Kyrrahafi.
Um er að ræða eldflaug sem gæti dregið að herstöðvum Bandaríkjanna í Kyrrahafi. Vísir/EPA
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna vill herða aðgerðir sínar gegn Norður-Kóreu vegna kjarnorku og eldflaugatilrauna þeirra. Í yfirlýsingu sem ráðið vinnur nú að eru tilraunir einræðisríkisins fordæmdar og þess er krafist að þeim verði hætt.

AFP fréttaveitan hefur komið höndum yfir drög að yfirlýsingunni, sem Bandaríkin og Kína hafa þegar samþykkt. Skrifa átti undir hana í gær, en stjórnvöld í Rússlandi báðu um frest til að íhuga málið. Líklegt þykir að hún verði samþykkt um eða eftir helgi.

Norður-Kórea gerði þriðju eldflaugatilraunina á tveimur vikum á fimmtudaginn en þær hafa allar misheppnast. Tilraunirnar hafa verið gerðar á tilteknum eldflaugum sem gætu dregið að herstöðvum Bandaríkjanna í Kyrrahafinu.

Auk þess er talið líklegt að undirbúningur standi nú yfir fyrir fimmtu kjarnorkusprengjutilraun Norður-Kóreu.

Núverandi þvinganir Öryggisráðsins gegn Norður-Kóreu fela í sér að ríkið megi ekki þróa eldflaugatækni og kjarnorkuvopn, en yfirvöld landsins hafa haldið því ótrauð áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×