Innlent

Undir stöðugu eftirliti

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Við Herjólfsgötu í Hafnarfirði reyndi pilturinn að skera telpuna á háls með brauðhníf.  Í læknisvottorði sem notað var fyrir dómi kom fram að dýpstu skurðirnir hafi verið yfir hálsæðum og barka.
Við Herjólfsgötu í Hafnarfirði reyndi pilturinn að skera telpuna á háls með brauðhníf. Í læknisvottorði sem notað var fyrir dómi kom fram að dýpstu skurðirnir hafi verið yfir hálsæðum og barka. vísir/daníel rúnarsson
Í frumvarpi til aukafjárlaga er lagt til 64,5 milljóna framlag til Barnaverndarstofu til að geta staðið við dóm héraðsdóms yfir 17 ára pilti sem þarf öryggisvistun og að vera undir eftirliti allan sólahringinn.

Pilturinn var sakfelldur árið 2014 fyrir að reyna að myrða níu ára stúlku með því að skera hana á háls. Árásin var hrottaleg og þurfti að sauma 34 spor í telpuna.

Í frumvarpinu kemur fram að nauðsynlegt þyki að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að pilturinn skaði ekki sjálfan sig, önnur börn eða aðra í nærumhverfi sínu og kostar vistunin 64,5 milljónir á ári. Langmest fer í laun gæslufólks en hann þarf að vera undir eftirliti allan sólarhringinn.

Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, segir að í þessu tilviki sé vandinn flókinn vegna þroskafráviks og þroskaraskana. „Svona einstaklingar hafa mjög sérstakar þarfir og því ekki auðvelt að hafa þá á stofnun með öðrum.“ Hann bætir við að vegna þess að þarna sé um að ræða barn þurfi að gæta réttinda piltsins og virða þau.

Bragi Guðbrandsson
„Þarna er einstaklingur sem er hættulegur sjálfum sér og öðrum vegna fjölþætts vanda. Það þýðir að við verðum að tryggja öryggi viðkomandi, annarra og umhverfisins í kring en á sama tíma að tryggja að barnið fái notið þeirra réttinda sem mannréttindaákvæði kveða á um. Virk umgengni í samfélaginu er nauðsynleg og mikilvæg fyrir börn og unglinga. Ef vel tekst til þá er hægt að draga úr líkum á að viðkomandi fari sjálfum sér eða öðrum að voða. Þess vegna skiptir máli að gera þetta vel þegar viðkomandi er á barnsaldri því það margborgar sig þegar horft er til framtíðar.“

Bragi segir að fyrst pilturinn var ekki metinn sakhæfur, fötlunin sé mikil og að drengurinn eigi erfitt með að vera með öðrum þá sé búið til sérúrræði. 

„Þetta er dýrt en það er ekki um annað að velja. Þarfir hans eru sérstakar og þá er hægt að byggja utan um einstaklinginn. Þegar frá líður og slíkir einstaklingar fullorðnast þá er hægt að minnka gæsluna.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu


Tengdar fréttir

Níu ára stelpa skorin á háls í Hafnarfirði

Níu ára stelpa í Hafnarfirði var skorin á háls í dag. Árásarmaðurinn var ungur maður sem mun vera andlega veikur. Árásarmaðurinn og stúlkan þekkjast ekki. Atburðurinn varð nærri Sundhöllinni í Hafnarfirði. Stúlkan mun hafa verið flutt á slysadeild en er ekki í lífshættu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×