Skoðun

Umskurn sveinbarna

Jón Sigurðsson skrifar
Um það bil þriðjungur allra sveinbarna á jörðinni er umskorinn á forhúð nokkrum dögum eftir fæðingu. Þetta á við um mikinn meirihluta sveinbarna í Norður-Afríku og víðar í álfunni, Arabalöndum, Persíu, í Mið-Asíu og í Indónesíu og um það bil helming sveinbarna í Norður-Ameríku. Lítill hluti umskorinna eru synir Gyðinga en meðal þeirra nýtur athöfnin sérstakrar helgi.

Umskurn sveinbarna er smávægileg og fljótleg skurðaðgerð á húðfellingu, einna líkust minnstu lýtalækningum. Auðvelt er að koma við staðdeyfingu og annarri heilsugæslu. Umskurn sveinbarna samrýmist öllum þekktum hugmyndum um forræði foreldra.  Hún er eins ólík umskurn ungmeyja og orðið getur.

Frumvarp til laga um bann við umskurn sveinbarna byggist á vanþekkingu og misskilningi. Refsiákvæði þess hljóta auk þess að teljast óhæfileg og niðurlægjandi. Enginn vafi er um góðan ásetning, en misskilin góðsemi og æskuhroki meðflytjenda koma einnig við sögu. Í núverandi aðstæðum hérlendis snertir bann þetta nær einvörðungu fjölskyldur aðfluttra múslíma.

Í Fréttablaðinu (laug. 17.2. 2018) telur Óttarr Guðmundsson geðlæknir sæma að tengja þetta frumvarp sérstaklega við Framsóknarflokkinn og löngu látinn leiðtoga Framsóknarmanna. Hermann Jónasson forsætisráðherra tók þá erfiðu ákvörðun skömmu fyrir upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari að meina nokkrum Gyðingum landgöngu hér. Í þessu fylgdi hann fordæmi Breta, Svía og fleiri nágrannaþjóða.

Full alvara málsins var ekki kunn hér þá, en ábyrgðin er hin sama. Eftir styrjöldina átti Thor Thors sendiherra góðan hlut að því að rétta orðspor Íslendinga.

Ummæli Óttars eru hugsuð sem meinlítið skens. En þau eru óviðeigandi. Og Gyðingar og Ísraelsríki njóta virðingar meðal Íslendinga.

Höfundur er fv. skólastjóri




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×