Skoðun

UMS er velferðarstofnun

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Í Fréttablaðinu þann 9. september sl. er embætti umboðsmanns skuldara sett í flokk eftirlitsstofnana. Það er óþarfi að leita álits á þessari skilgreiningu, líkt og blaðið gerði 12. september, en í lögum nr. 100/2010 um umboðsmann skuldara kemur skýrt fram að embættið hefur ekkert eiginlegt eftirlitshlutverk. Eitt af hlutverkum umboðsmanns er að „taka við erindum og ábendingum skuldara um ágalla á lánastarfsemi og senda áfram til viðeigandi eftirlitsstjórnvalds.“

Viðeigandi eftirlitsstjórnvöld eru Neytendastofa annars vegar og Fjármálaeftirlitið hins vegar. Meginverkefni umboðsmanns skuldara felst í greiðsluaðlögun einstaklinga. Við stofnun embættisins, árið 2010, var nokkur umræða um það undir hvaða ráðuneyti umboðsmaður skuldara ætti að heyra. Til að leggja áherslu á hlutverk embættisins sem velferðarstofnunar ákvað Alþingi að það skyldi heyra undir þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra.

Í sömu frétt, þann 9. september, eru framlög til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna árið 2008 borin saman við framlög til umboðsmanns skuldara árið 2012. Ráðgjafarstofan hafði ekki nema örlítið brot af þeim verkefnum sem umboðsmanni skuldara ber nú að sinna samkvæmt lögum. Þar á meðal var ekki komið til sögunnar langumfangsmesta og kostnaðarsamasta verkefni embættisins sem er greiðsluaðlögun einstaklinga skv. lögum nr. 101/2010. Að bera Ráðgjafarstofu og umboðsmann skuldara saman er afar ómarkvisst og villandi.

700 milljóna niðurskurður

Embætti umboðsmanns skuldara hóf starfsemi sína 1. ágúst 2010 og var rekstrarkostnaður fyrsta árið 292,3 milljónir fyrir fimm mánuði þess árs. Á ársgrundvelli hefði það verið 701,5 milljónir. Á ársgrundvelli er því hækkunin frá stofnun til 2012 um 63,5% sem er langur vegur frá 1.707% hækkun sem Fréttablaðið greinir frá. Ekki kom fram í fréttinni að rekstrarkostnaður embættisins er greiddur af fjármálafyrirtækjum.

Til frekari skýringar skal taka fram að árið 2012 er það ár sem rekstrarkostnaður embættisins náði hámarki, eða 1.146,9 milljónum. Áætlaður kostnaður þessa árs er 944,6 milljónir og samkvæmt áætlunum embættisins er gert ráð fyrir um 25% niðurskurði á næsta ári eða rúmlega 700 milljónum. Til að bregðast við þessum niðurskurði hefur því miður þurft að grípa til uppsagna.

Mikilvægt er að bæta enn frekar þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur í greiðsluerfiðleikum. Í því sambandi er úrræðið greiðsluaðlögun mikilvægt og telja verður að það beri að styrkja enn frekar til hagsbóta fyrir samfélagið.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×