Skoðun

Umræða um tolla og landbúnað

Hörður Harðarson skrifar
Nokkur umræða hefur farið fram að undanförnu á síðum Fréttablaðsins um íslenskan landbúnað. Í henni hefur spjótunum verið beint að tollum á innflutt svínakjöt og látið sem svo að fyrir þeim séu engin rök. Tollar á landbúnaðarafurðir eru einkum hugsaðir til þess að rétta samkeppnisstöðu innlends landbúnaðar gagnvart ósanngjarnri samkeppni erlendis frá.

Dæmi um þetta er að á Íslandi gerir ríkið ríkari kröfur til svínabænda varðandi velferð og aðbúnað dýra, takmörkun á lyfjanotkun og réttindi launafólks en í þeim löndum sem svínakjöt er flutt frá til Íslands. Þessar kröfur tryggja að aðstæður við íslenskan landbúnað eru með því besta sem gerist en leiða á móti til aukins kostnaðar, sem veikir sam­keppnis­stöðu íslenskra svínabænda. Til þess að rétta þessa samkeppnisstöðu eru lagðir tollar á innflutt kjöt.

Þegar farið er fram á að íslenska ríkið felli einhliða niður tolla á landbúnaðarvörur vakna áleitnar spurningar. Til dæmis hvort réttlætanlegt sé að íslenska ríkið heimili óheftan innflutning á landbúnaðarafurðum til landsins sem eru fjarri því að uppfylla þær kröfur sem það gerir á sama tíma til íslenskra landbúnaðarafurða? Ætti ríkið á móti að slaka á þeim kröfum sem það gerir til íslenskra bænda í þágu lægra verðs á kjöti? Eða eiga íslenskir bændur að treysta á að íslenskir neytendur verði reiðubúnir til þess að greiða hærra verð fyrir vöru sem uppfyllir allar kröfur þegar þeim stendur til boða ódýrari vara sem uppfyllir ekki sömu kröfur?

Íslenskur svínabúskapur hefur gengið í gegnum mikla hagræðingu á undanförnum áratugum sem leitt hefur til fækkunar og stækkunar búa, sem þó eru afar lítil á alþjóðlegan mælikvarða. Engu að síður eru enn til staðar fjölskyldubú sem eru staðsett víðs vegar um landið, en ljóst er að þau munu vart lifa af samkeppni við óheftan innflutning. Það er því tvíbent að kalla á sama tíma eftir því að tollar séu felldir niður og að svínabúin séu lítil og sæt fjölskyldubú.

Mikilvægt er að rennt sé styrkari stoðum undir þróun inn­lendrar búvöruframleiðslu og skal tekið undir framkomnar óskir um endurskoðun á styrkjakerfi landbúnaðarins. Þar þarf að leggja áherslu á verkefnatengdan stuðning samhliða því að dregið verði úr beingreiðslum til bænda. Markmið stuðnings við íslenskan landbúnað gætu ­þannig þróast á þeim forsendum að gera landbúnaðinn sam­keppnis­hæfari, auk þess sem lögð yrði áhersla á stuðning sem gæti verið tímabundinn til ákveðinna verkefna. Mikilvægt er að stuðningur hafi ­þannig sveigjanleika að hann taki breytingum eftir því sem talið er æskilegt á hverjum tíma.

Að lokum er rétt að hafa það í huga að frá ársbyrjun 2013 hefur verð til okkar svínabænda lækkað verulega á sama tíma og það hefur hækkað út úr búð. Íslenskir neytendur hafa því miður ekki grætt á þessu, ekki frekar en þær fjölskyldur sem stunda svínabúskap á Íslandi. Það hafa hins vegar stór fyrirtæki í verslunarrekstri gert, en í nýlegri skýrslu Samkeppnis­eftir­litsins um dagvörumarkaðinn kemur fram að arðsemi þeirra er margföld á við það sem þekkist hjá sambærilegum fyrir­tækjum beggja vegna Atlantshafsins.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×