Fótbolti

Ummæli þýsks stjórnmálamanns um Boateng vekja reiði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/getty
Ummæli þýska stjórnmálamannsins Alexanders Gauland um landsliðsmanninn Jérome Boateng hafa vakið hörð viðbrögð.

Gauland er varaformaður stjórnmálaflokksins AfD (Alternative für Deutschland) sem er með harða stefnu í málum innflytjenda. Hann lét hafa eftir sér að þótt fólk væri hrifið af Boateng sem fótboltamanni myndi það ekki vilja búa við hliðina á fólki eins og honum.

Boateng, sem á þýska móður og ganverskan föður, vildi lítið tjá sig um þessi ummæli Gauland.

„Í hreinskilni sagt hef ég ekkert um þetta að segja. Eina sem ég get gert er að hlæja að þessu,“ sagði Boateng sem hefur leikið 58 landsleiki fyrir Þýskaland.

„Það hryggir mig að þetta skuli enn gerast,“ bætti varnarmaðurinn öflugi við.

Gauland reyndi að klóra í bakkann og sendi frá sér tilkynningu þar sem hann þvertók fyrir að hafa ætlað að móðga Boateng og sagði orð hans hafa verið tekin úr samhengi. Frauke Petry, formaður AfD, baðst svo afsökunar á ummælum Gauland á Twitter í gær.

Ýmsir hafa komið Boateng til varnar á Twitter, þ.á.m. Julia Klöckner hjá Kristilegum demókrötum sem sagðist frekar vilja hafa Boateng sem nágranna en Gauland.

Benedikt Höwedes, félagi Boatengs í vörn þýska landsliðsins, tók í sama streng þegar hann tísti: „Ef þú vilt vinna titla með Þýskalandi þarftu nágranna eins og hann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×