Innlent

Umhverfisvaktin: Verið að breyta útvistarparadís í Hvalfirði í ruslahaug Reykvíkinga

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Umhverfisvaktin segir að nú sé komið nóg. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga sé mettað og má alls ekki við meiri mengangi iðnaði.
Umhverfisvaktin segir að nú sé komið nóg. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga sé mettað og má alls ekki við meiri mengangi iðnaði. Vísir/Vilhelm
Stjórn Umhverfisvaktarinnar telur íbúa Reykjavíkur og Dag B. Eggertsson, borgarstjóra, ekki vera meðvitaða um áhrif sem mengandi iðnaður í Hvalfirði hefur haft á fjörðinn.

Reykjavíkurborg hlaut nýverið umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir markvissar aðgerðir í umhverfismálum.

Í opnu bréfi til borgarstjóra og Reykvíkinga segir að blikur séu á lofti þegar náttúra Hvalfjarðar er annars vegar. Á Grundartanga eru fjögur iðjuver starfandi sem dæla mengun yfir Hvalfjörðinn. Þá hafi skýrslur sem eiga að meta áhrif starfseminnar verið byggðar á vöktunarskýrslum iðjuveranna.

Umhverfisvaktin segir að vöktun umhverfis í grennd við Grundartanga þarfnist endurskoðunar þar sem hún sé gerð ábyrgð forsvarsmanna iðjuveranna sjálfra.

Umhverfisvaktin hefur vakið athygli á því að á síðustu árum hafa framleiðsluaukning Norðuráls og nýjar verksmiðjur sem rísa á Grundartanga ekki þurft að sæta mati á umhverfisáhrifum.

Umhverfisvaktin segir að nú sé komið nóg. Iðnaðarsvæðið á Grundartanga sé mettað og má alls ekki við meiri mengangi iðnaði. „Það liggur í augum uppi miðað við núverandi mengunarálag og fyrirhugaðar framkvæmdir að vonir íbúa við Hvalfjörð um að fjörðurinn fái að vaxa og dafna sem útivistarparadís og landbúnaðarhérað verða að engu ef áfram er unnið að því að breyta honum í mengaðan iðnaðarfjörð og ruslahaug Reykvíkinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×