Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: KR - ÍR 95-73 | KR-ingar aftur á sigurbraut

Kristinn Páll Teitsson í DHL-höllinni skrifar
KR svaraði heldur betur fyrir tapleik síðustu umferðar og skellti ÍR-ingum 95-73 á heimavelli í kvöld en góð varnarvinna KR-inga var það sem skilaði þeim sigrinum í kvöld og toppsætinu á ný.

Bæði liðin byrjuðu leikinn af krafti og var mikill hraði í leiknum framan af. Liðin voru að hitta vel en þrátt fyrir að KR-ingar hafi náð forskotinu snemma leiks voru Breiðhyltingar aldrei langt undan.

Eftir að hafa náð smá forskoti undir lok fyrri hálfleiks gerðu KR-ingar út um leikinn með frábærum varnarleik í þriðja leikhluta en þá náðu KR-ingar tuttugu stiga forskoti sem ÍR ógnaði aldrei.

KR-ingar því komnir á toppinn á ný en Stjarnan getur náð toppsætinu aftur af KR með sigri gegn Stólunum í stórleik umferðarinnar á morgun.

Af hverju vann KR?

KR-ingar voru flottir á báðum endum vallarins í kvöld, í vörninni  lokuðu þeir vel á helstu skyttur ÍR-inga eftir því sem leið á leikinn og vannst leikurinn á varnarvinnu.

ÍR var að hitta vel bæði innan sem utan teigsins framan af og var staðan jöfn um miðbik annars leikhluta 29-29 þegar KR-ingar settu í lás og gengu hægt og bítandi frá gestunum.

Heimamenn í DHL-höllinni voru sömuleiðis að hitta vel og leyfa boltanum að fljóta vel en fyrir utan þriggja stiga línuna voru Jón Arnór Stefánsson og Þórir Guðmundur Þorbjarnarsson saman baneitraðir.

Bestu menn vallarins:

Þórir bar af í leiknum en hann nýtti heldur betur tækifærið í fjarveru Brynjars Þórs Björnssonar í kvöld. Þrátt fyrir að hafa lent í villuvandræðum framan af var hann frábær í sóknarleik KR-inga.

Tölfræðin sem vakti athygli:

KR-ingar gerðu í raun út um leikinn strax í þriðja leikhluta þar sem þeir náðu tuttugu stiga forskoti sem ÍR-ingar náðu aldrei að brúa en Breiðhyltingar hittu aðeins úr fjórum skotum af tuttugu í þriðja leikhluta.

Kom það eftir að hafa aðeins sett niður eina körfu úr opnum leik á síðustu fjórum mínútum annars leikhluta en þá sneru KR-ingar stöðunni úr því að vera í jöfnum leik í að vera með tuttugu stiga forskot.

Hvað gekk illa?

ÍR-ingar sem voru búnir að vinna sex leiki af síðustu níu, meðal annars með sigri á Stjörnunni, áttu fá svör þegar KR-ingar komust í gírinn. Varnarlega virtust menn gleyma sér og sóknarlega vantaði meira framlag frá lykilleikmönnum.

Tveir lykilleikmenn í sókn ÍR, Danero Thomas og Quincy Hankins-Cole, áttu fá svör við vörn KR og neyddist Matthías Orri Sigurðarson því oft að fara í erfið skot en KR-ingar voru duglegir að tvídekka hann og mæta með hávörn þegar hann keyrði inn á körfuna.

KR-ÍR 95-73 (29-27, 22-15, 25-17, 19-14)

KR: Philip Alawoya 22/9 fráköst/5 stoðsendingar, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 20, Jón Arnór Stefánsson 17/4 fráköst/6 stoðsendingar, Sigurður Á. Þorvaldsson 9/6 fráköst, Darri Hilmarsson 8, Pavel Ermolinskij 6/11 fráköst/7 stoðsendingar, Snorri Hrafnkelsson 5/8 fráköst, Sigvaldi Eggertsson 3, Vilhjálmur Kári Jensson 3, Arnór Hermannsson 2/5 fráköst.

ÍR: Matthías Orri Sigurðarson 18/7 stoðsendingar, Sveinbjörn Claessen 18/5 fráköst, Trausti Eiríksson 9/6 fráköst/3 varin skot, Sæþór Elmar Kristjánsson 8, Danero Thomas 8/7 fráköst, Quincy Hankins-Cole 6/6 fráköst/3 varin skot, Hákon Örn Hjálmarsson 4, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 2.

Jón Arnór: Vorum skelfilegir fyrir norðan en höfðum kannski gott af tapinu„Það sem stendur upp úr þessum sigri er varnarleikurinn í kvöld. Við náðum að loka vel á þá og gerðum þeim erfitt fyrir í öllum sóknum og upp úr því fengum við hraðaupphlaupskörfur,“ sagði Jón Arnór Stefánsson, aðspurður hvað hefði skilað sigrinum gegn ÍR í kvöld.

„Við spiluðum hraðan bolta í kvöld, það voru allir að skila stigum og svo fengum við auðveldar körfur upp úr hraðaupphlaupunum. Lykillinn að sigrinum í dag var vörnin sem hefur verið léleg og það opnaði upp fyrir allan sóknarleikinn.“

„Við erum ekkert lið sem er með fimm leikmenn, við erum með stráka á bekknum sem eru mjög góðir og getum rúllað vel á tíu mönnum. Til þess að verða meistaralið og vinna titla þarftu að vera með bekk sem getur gefið liðinu innspýtingu“

KR-ingar töpuðu nokkuð óvænt fyrir norðan fyrir helgi og voru menn ákveðnir í að svara fyrir það í kvöld.

„Við spiluðum alveg skelfilega fyrir norðan. Við vorum hrikalega andlausir og vorum búnir að vera tæpir í leikjunum þar á undan á báðum endum vallarins,“ sagði Jón Arnór og bætti við:

„Það lá eiginlega í loftinu að við myndum tapa leik. Það höfðu kannski bara allir gott af þessu tapi og við einfaldlega spiluðum allt annan bolta í kvöld,“ sagði Jón að lokum.

Borce: Gerðum mikið af mistökum og KR-ingar refsuðu„Við reyndum að breyta til reglulega til að reyna að stöðva KR en við gerðum allt of mörg mistök til að reyna að koma okkur aftur inn í leikinn,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, aðspurður hvað hefði farið úrskeiðis í kvöld.

„Þegar þú ert 18 stigum undir eftir þrjá leikhluta skiptir stigamunurinn undir lokin ekki öllu máli en okkur bara einfaldlega tókst ekki að gera atlögu að forskotinu þeirra. Varnarlega vorum við að gera of mörg mistök og það jók á sjálfstraust KR-inga.“

ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu en KR-ingar fundu yfirleitt glufur á vörninni þeirra.

„Við gerðum mikið af mistökum þegar þeir sóttu hratt, við ætluðum að reyna að stöðva hraðaupphlaupin þeirra en við náðum aldrei tökum á því. KR spilaði mjög vel í kvöld en það var að hluta til af því að við gerðum þeim auðvelt fyrir,“ sagði Borce sem hrósaði Jóni Arnóri.

„Við reyndum að loka á bakverðina en Jón Arnór var of oft opinn og var að finna liðsfélaga sína vel. Hann var frábær í dag og við þurfum að fara vel yfir það hvað fór úrskeiðis í kvöld því það er stutt í næsta leik og við getum ekki horft of mikið á þennan leik.“

ÍR-ingar áttu fá svör við varnarleik KR-inga þegar líða tók á leikinn.

„Þeir þvinguðu okkur í erfið skot, við þurfum að skoða betur hvenær menn eiga að fara upp í skotin er ég er viss um að strákarnir munu gera betur næst og að þetta hafi bara verið slakur leikur hjá strákunum.“

Finnur: Loksins komu menn óhræddir af bekknum 

„Það var gott að fá þennan sigur en við munum ekkert missa okkur yfir þessum leik. Spilamennskan í kvöld er það sem við viljum sjá öll kvöld og álíka framlag af bekknum,“ sagði Finnur Stefánsson, þjálfari KR, í leikslok.

Finnur var sáttur með að sjá leikmenn koma óhrædda inn þegar færi gafst.

„Loksins, loksins, komu menn inn óhræddir. Menn eiga að vera ákveðnir þegar þeir koma af bekknum og ekkert hikandi. Það hefur vantað upp á hjá bekknum en við gerum kröfur til þess að þeir komi af sama krafti inn í alla leiki og berjist um alla bolta.“

KR-ingar gerðu vel í að loka á helstu sóknarvopn ÍR-inga en Finnur hrósaði Matthíasi eftir leik.

„Matti er búinn að vera stórkostlegur eftir áramót, við könnumst vel við hann og hann er af góðu kyni en eftir að hafa spilað meiddur fyrir áramót er hann að sýna sitt rétta andlit núna. Við vildum auðvitað stöðva hann en það þarf að stöðva alla leikmennina.“

Brynjar Þór Björnsson var í borgaralegum klæðum í kvöld vegna meiðsla en Finnur sagðist ekki vera viss hvenær hann myndi koma inn á völlinn á nýjan leik.

„Hann kemur bara inn þegar hann verður klár, hvort sem það verður í Njarðvík á föstudaginn eða gegn Keflavík. Hann er í færum höndum hjá sjúkraþjálfarateyminu okkar sem hefur gert frábært starf í að halda mönnum heilum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×