Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Selfoss -28-28 | Selfyssingar náðu í stig til Eyja

Guðmundur Tómas Sigfússon í Vestmannaeyjum skrifar
Díana Dögg Magnúsdóttir, einn helsti markaskorari ÍBV.
Díana Dögg Magnúsdóttir, einn helsti markaskorari ÍBV. vísir/ernir
Selfoss sótti eitt stig til Eyja í Olís-deild kvenna í dag. Leiknum lauk með 28-28 jafntefli en ÍBV virtist vera með leikinn í höndunum þegar tuttugu sekúndur lifðu leiks. Hrafhildur Hanna Þrastardóttir var að venju í stuði hjá Selfyssingum en hún skoraði heil tólf mörk í leiknum.

Katrín Ósk Magnúsdóttir var þó frábær í liði Selfoss þar sem hún varði 20 skot. Mörg hver voru úr algjörum dauðafærum á mikilvægum tímapunktum. Erla Rós Sigmarsdóttir átti einnig frábæran leik í marki ÍBV þar sem hún varði 16 skot.

Fyrir leikinn bjuggust ekki margir við öðru en sigri ÍBV, þar sem Selfoss-stelpur hafa ekki oft sótt stig til Eyja. Sebastian Alexandersson kom inn á það í viðtali að það hafi verið sérstaklega sætt að sækja stig, vegna þess.

Í upphafi leiks var jafnræði í leiknum en ÍBV tók fljótt forystuna, þær leiddu leikinn ýmist með tveimur til þremur mörkum. Þær komust fimm mörkum yfir þegar tvær mínútur voru til hálfleiks.

Selfoss gaf þá mikið í og náði að minnka muninn í tvö mörk og auk þess byrjaði ÍBV með leikmann útaf í síðari hálfleik. Sebastian Alexandersson gerði þá vel í því að fá sínar stelpur til að byrja seinni hálfleik vel.

Það tók þær tvær sóknir að rífa niður forskot ÍBV og komust þær yfir með því að skora þrjú fyrstu mörk síðari hálfleiks. Þá hafði Vera Lopes einnig verið rekin útaf og Drífa Þorvaldsdóttir klikkað á vítakasti.

Það virtist því allt vera að ganga hjá Selfossi en ÍBV tók þá aftur frábæran kafla og náðu sér í tveggja marka forskot á ný. Nú hefst eltingaleikur hjá Selfossi sem náðu alltaf að minnka forskot ÍBV niður á ný.

Á köflum í leiknum var þetta algjör markvarðasýning þar sem Erla Rós og Katrín Ósk áttu algjöra stórleiki í markinu. ÍBV hirti forystuna á síðustu tíu mínútunum og virtust ætla að sigla heim þægilegum sigri.

ÍBV var með boltann þegar 20 sekúndur voru eftir en þar gerði Ester Óskarsdóttir mistök og missti boltann. Adina Maria Ghidoarca hirti boltann og brunaði upp völlinn þar sem hún jafnaði leikinn.

ÍBV tók síðan leikhlé og hafði fimm sekúndur til þess að skora sem þær gerðu ekki. Þær áttu síðan fríkast þegar leiktíminn var úti en þá skaut Vera Lopes einhverja úr vegg Selfyssinga niður og fékk að líta rauða spjaldið réttilega þar sem boltinn fór í andlit Selfyssingsins.

Eyjakonur gætu því misst Stjörnuna fram úr sér í 5. sæti deildarinnar en Selfoss færir sig lengra frá Fylki sem eru í 8. sætinu.

Sebastian Alexandersson: Við brutum ákveðinn ís„Við höfum aldrei verið nálægt því að vinna hérna, það er ekki hægt annað en að vera ánægður núna,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, eftir eitt stig úti í Eyjum.

„Við brutum ákveðin ís, það er jákvætt. Ég er sáttastur með varnarleikinn, þó svo að ÍBV hafi skorað fullt af mörkum þá erum við að þreifa okkur áfram með óhefðbundinn varnarleik.“

„Mér fannst hann smella frábærlega í seinni hálfleik. Þetta er eitthvað sem við verðum að skoða, hvort við notum í framhaldinu eða ekki. Stundum virkar svona bara einu sinni eða tvisvar,“ sagði Sebastian um varnarleikinn sem var góður í dag.

„Varnarleikurinn, markvarslan og baráttan fyrst og fremst, það var 100% einbeiting hjá öllum leikmönnum liðsins að ná í eitthvað hérna þrátt fyrir að hafa aldrei fengið neitt hér. Þetta var ákveðið karakterspróf sem við stóðumst.“

Selfoss-liðið kom vel inn í seinni hálfleikinn, var eitthvað sérstakt sem Sebastian sagði við sínar stelpur?

„Nei, nei, við skerptum á okkar leikskipulagi og herfræði. Við framkvæmdum betur það sem við höfðum trú á. Það er öðruvísi að spila við ÍBV útaf þessari vörn, það er ekki flókið að opna hana. Það er ekkert mál að segja það og annað mál að gera það.“

„Þú mætir þessari vörn bara tvisvar sinnum á ári, þar af leiðandi eru leikmenn ekki alveg í „synci“ með það. Við fengum fullt af flottum færum og hún varði fínt í markinu hjá þeim og fullt af dauðafærum,“ sagði Sebastian meðal annars eftir leik.

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir: Línuspilið varð okkur að falli„Ég hefði klárlega viljað fá bæði, sérstaklega þegar við erum einu marki yfir og með boltann þegar 15 sekúndur eru eftir,“ sagði Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, eftir jafntefli á heimavelli gegn Selfossi.

„Þetta er virkilega svekkjandi en hörkuleikur allan tímann og þær spiluðu vel. Það sem fór mest úrskeiðis var það hversu oft við reyndum að troða boltanum á línumanninn, við töpuðum þannig boltanum örugglega oftar en tíu sinnum í leiknum.“

„Við vorum mikið einum færri þá, fengum eina glórulausa brottvísun sem hjálpaði okkur ekki. Við áttum að fara inn í hálfleik með 4-5 mörk í staðinn fyrir að hleypa þeim niður í tvö mörk,“ sagði Hrafnhildur um lélega byrjun síns liðs í síðari hálfleik.

„Munurinn er algjörlega það, að tapa tíu boltum með línuspili og þegar við töpuðum boltanum fáum við oft mark í bakið.“

„Baráttan í mínu liði var flott og öllum mörkum var fagnað og það var leikgleði sem vantaði ekki. Ég legg mikið upp úr því að síðustu leikirnir verði þannig. Við erum enn í séns á að fara inn í heimaleikjarétt og við erum klárlega að stefna að því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×