Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - KR 61-94 | KR valtaði yfir slaka Hauka

Smári Jökull Jónsson í Schenker-höllinni á Ásvöllum skrifar
Brynjar Þór Björnsson og félagar eru taplausir á toppnum.
Brynjar Þór Björnsson og félagar eru taplausir á toppnum. Vísir/anton brink
KR valtaði yfir Hauka á heimavelli þeirra síðarnefndu að Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld og unnu 94-61 stórsigur.

Liðin mættust í úrslitum Dominos-deildarinnar í fyrra þar sem KR hafði betur. Það var hins vegar ekki að sjá á Haukaliðinu að þar væri lið sem fékk silfur í deildinni í fyrra. Þeir héldu reyndar í við gestina í fyrsta leikhluta en svo stungu KR-ingar af.

KR bætti jafnt og þétt við forystu sína og unnu að lokum stórsigur, 91-64 og eru því með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir í Dominos-deildinni. Haukar hafa unnið einn sigur til þessa en þeir spiluðu án Bandaríkjamanns í kvöld.

Af hverju vann KR?

KR liðið var einfaldlega nokkrum klössum betra en Haukar í dag. Þeir eru með marga leikmenn sem skila framlagi og þó svo að þeirra besti leikmaður til þessa á tímabilinu, Brynjar Þór Björnsson, hafi verið rólegur í kvöld þá eru margir aðrir sem taka af skarið.

Haukar héldu í við KR í fyrsta leikhluta en svo hrökk sóknarleikurinn í baklás og þeir skoruðu samtals 17 stig í næstu tveimur leikhlutum. Hittni þeirra var afar slök og endaði í 32% nýtingu utan af velli.

Lykilmenn Hauka eins og Finnur Atli Magnússon náðu sér alls ekki á strik og Hafnfirðingar hljóta að leggja allt kapp á að fá inn Bandaríkjamanninn Sherrod Brown fyrir næsta leik en hann var ekki kominn með leikheimild í kvöld.

KR liðið var að hitta vel og Sigurður Þorvaldsson var í stuði og hitti vel. Staðreyndin er hins vegar að sú að KR þurfti engan stjörnuleik til að vinna sigur í dag en þeir gerðu nóg og töluvert meira en það.

Bestu menn vallarins:

Sigurður Þorvaldsson var eins og áður segir góður hjá KR en hann skoraði 19 stig í kvöld og tók 7 frákost. Hann var að hitta vel og það er ljóst að hann er í fantaformi og verður KR góður liðsstyrkur í deildinni í vetur.

Darri Hilmarsson og Arnór Hermannsson voru sömuleiðis góðir í liði KR og Darri er leikmaður sem eflaust allir þjálfarar myndu vilja hafa í sínu liði, gefst aldrei upp og skilar alltaf sínu. Arnór hefur staðið vaktina í leikstjórnendahlutverkinu í fjarveru Pavel Ermolinskij og öðlast dýrmæta reynslu.

Brynjar Þór hefur verið frábær á tímabilinu en var rólegri í kvöld og setti 10 stig.

Það var fátt um fína drætti í liði Hauka og í raun enginn leikmaður þeirra að spila á eðlilegri getu.

Hvað gekk illa?

Það gekk flest allt illa hjá Haukunum. Hittni þeirra var slök og í varnarleikurinn ekki til útflutnings í fyrri hálfleik en þá skoruðu gestirnir 56 stig. Í öðrum og þriðja leikhluta skoruðu heimamenn samtals 17 stig og það er auðvitað skelfileg frammistaða.

Liðið lék án Bandaríkjamanns í kvöld eftir að hafa losað sig við Aaron Brown og aðrir lykilmenn liðsins náðu ekki að stíga upp til að brúa það bil sem hann skildi eftir sig. Sherrod Wright sem lék frábærlega með Snæfellingum í fyrra fær væntanlega leikheimild fyrir næsta leik Haukanna og það er gleðiefni fyrir þá.

En miðað við frammistöðu annarra leikmanna liðsins í kvöld er ljóst að meira þarf til en stórleiki frá Wright ætli Haukarnir sér að næla í stig í deildinni.

Finnur Freyr: Kostur að hafa spilað án lykilmanna
Finnur Freyr Stefánsson er þjálfari KR.Vísir/Ernir
Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR var ánægður með sitt lið í kvöld en KR-ingar unnu stórsigur á Haukum í Dominos-deild karla að Ásvöllum í kvöld.

„Við vorum að hugsa um að halda tempóinu uppi allan tímann og keyra á fullu bæði í vörn og sókn. Eftir fremur slakar fyrstu mínútur sem er kannski eðlilegt, þegar hitt liðið vantar atvinnumanninn sinn og við komum eitthvað asnalegir inn, þá sýndum við fagmannlega framkomu og kláruðum leikinn,“ sagði Finnur Freyr við Vísi eftir leik.

Pavel Ermolinskij kom inn í lið KR í fyrsta sinn í vetur en hann hefur átt við meiðsli að stríða. Finnur sagði það skipta miklu fyrir KR að fá hann til baka.

„Hann er náttúrulega „generallinn“ okkar, hershöfðinginn. Hann stjórnar gólfinu og hefur verið lykilmaður í fjöldamörgum titlum fyrir KR þannig að það er gríðarlega gott að sjá hann aftur á gólfinu. Arnór er búinn að standa sig vel í leikstjórnandanum hingað til og býr vel að þessari reynslu,“ bætti Finnur Freyr við og sagði að KR vildi spila hraðar en þeir gerðu í dag og þyrftu á breidd að halda.

KR-liðið fékk framlag frá mörgum leikmönnum í kvöld og hafa á að skipa breidd sem fáir geta toppað.

„Breiddin er fín og það er kosturinn að hafa spiliað án Pavel og Cedric í fyrstu leikjunum og við erum enn án Jóns. Aðrir hafa þurft að taka stærri skref og nokkrir af þessum drengjum, eins og Arnór, Þórir og Villi eru allir búnir að taka næsta skref í að verða góðir leikmenn. Liðið og þeir búa vel að því en við þurfum að halda áfram að bæta okkur og gera vel í hverjum einasta leik,“ sagði Finnur að lokum.

Ívar: Okkar lykilmenn þurfa að stíga upp
Ívar Ásgrímsson var ósáttur með sína menn eftir tapið gegn KR í kvöld.Vísir
Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka var ósáttur með sína menn eftir tapið gegn KR í kvöld og sagði fátt jákvætt vera hægt að taka úr leik sinna manna.

"Þetta var skelfilegt í einu orði sagt. Við erum að spila án Kana og að reyna að fá lykilmenn til að stíga upp en þeir ná ekki einu sinni yfir 10 stigin í dag," sagði Ívar í samtali við Vísi að leik loknum.

"Við skorum að vísu 22 stig fyrstu átta mínútur í fyrsta leikhluta og sóknarlega litum við ágætlega út þar en varnarlega vorum við ekki nógu grimmir. Eftir átta mínútur vorum við með 22 stig en svo þegar voru fjórar mínútur liðnar af þriðja leikhluta vorum við með 36 stig. Ég er gáttaður hvernig menn koma tilbúnir til leiks," bætti Ívar við.

Ívar sagði alla grimmd hafa vantað í sína menn og að þeir hafi ekki þorað að sækja á körfuna.

"Það vantar grimmdina og menn hafa ekki trú á að þeir séu að setja skotin niður. Við óðum í skotunum en í þau fáu skipti sem við sækjum á körfuna þá brennum við af auðveldum sniðskotum. Við erum ekki nógu grimmir og látum ýta okkur út úr öllu. Við sækjum ekki á körfuna, fáum fimm víti allan leikinn og það er langt í frá að það sé dómurunum að kenna."

Haukar hafa samið við Sherrod Wright sem lék frábærlega með Snæfellingum í fyrra og Ívar sagðist eiga von á að hann yrði kominn með leikheimild fyrir næsta leik.

"Ég held að það eigi að vera klárt um miðja vikuna. Við getum ekki sagt að útlendingurinn komi og bjargi okkur. Okkar lykilmenn þurfa að stíga upp og við þurfum að fá Hauk í gang, hann þarf að fara að rífa sig af rassgatinu. Emil þarf að skora meira fyrir okkur og líka Hjálmar. Hann hefur verið að spila fína vörn og leggja sig fram en við þurfum meira sóknarframlag frá honum," sagði Ívar að lokum.

Pavel: Verður eins og að taka þakið af húsinu
Pavel Ermolinskij, leikmaður KR.Vísir/Stefán
Pavel Ermolinskij lék sinn fyrsta leik fyrir KR gegn Haukum í Dominos-deildinni þetta tímabilið en hann hefur átt við meiðsli að stríða. Hann var ánægður að vera kominn til baka.

„Það er æðislegt að vera kominn aftur. Það var smá stress en nú er mér létt að þetta sé frá, fyrsti leikurinn er alltaf erfiður. Nú get ég einbeitt mér að því að líða eins og körfuboltamanni aftur,“ sagði Pavel og sagðist vera í fínu standi.

„Skrokkurinn er í topplagi, eða svona. Það vantar smá leikform og ég er aðeins eftir á í nokkrum hlutum. En ég finn ekki fyrir neinu og ég þarf aðeins að komast í betra form og þá er ég klár.“

KR og Haukar mættust í úrslitum deildarinnar á síðasta tímabili en sigur KR var afgerandi í kvöld og Haukarnir áttu ekki möguleika gegn feiknasterkum KR-ingum.

„Að sjálfsögðu var þetta auðveldara en við áttum von á. Við þekkjum þá mjög vel og fátt sem kemur okkar á óvart í leik þeirra. Við náum alltaf að einbeita okkur vel fyrir þessa leiki og náum að vera skrefinu á undan þeim og það var það sem gerðist í dag.“

KR er með fullt hús stiga eftir fyrstu fjóra leikina og liðið hefur verið að leika fínan boltan án Pavel sem hefur gegnt lykilhlutverki hjá liðinu síðustu ár.

„Strákarnir hafa verið að spila frábærlega og nú þurfum við gömlu mennirnir sem erum að koma inn núna að passa okkur að vera ekki riðla of mikið til og bæta ofan á það sem strákarnir hafa verið að gera,“ sagði Pavel og bætti við.

„Það verða kannski smá vaxtaverkir á leiðinni. Þetta verður kannski eins og að taka þakið af húsinu og ætla að byggja aðra hæð. Á meðan þakið er af er þetta erfitt en síðan ertu komin með aðra flotta hæð á þetta,“ sagði Pavel að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×