Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Keflavík 89-69 | Haukar upp að hlið Snæfells

Stefán Árni Pálsson í Schenker-höllinni skrifar
Haukar unnu auðveldan sigur á Keflvíkingum, 89-69, í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld en leikurinn fór fram í DB Schenker-höllinni í Hafnarfirði. Leikurinn var aldrei spennandi og ljóst frá byrjun í hvað stefndi.

Haukar byrjuðu leikinn virkilega vel og þá sérstaklega Helena Sverrisdóttir, spilandi þjálfari liðsins, en hún gerði fyrstu níu stig heimastúlkna í leiknum. Alveg hreint mögnuð byrjun. Keflvíkingar áttu fá svör. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 26-15 fyrir Hauka.

Í öðrum leikhluta hélt áfram sama sagan nema Helena lét aðra leikmenn Hauka sjá um dæmið. Fljótlega var staðan orðin 41-20 og heimamenn að ganga frá Keflvíkingum. Helena skoraði fyrstu níu stig Hauka en síðan gerði hún aðeins tvö stig til viðbótar út hálfleikinn. Chelsie Alexa Schweers, leikmaður Hauka, var með tíu stig eftir fyrri hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 47-28 fyrir Hauka.

Keflvíkingar skoruðu sjö fyrstu stigin í síðari hálfleiknum og var staðan allt í einu orðin 47-35 fyrir Hauka. Fínasta byrjun sem var samt engan vegin nóg. Haukar settu þá bara í annan gír og náðu aftur upp sama forskoti. Það er skemmst frá því að segja að Haukar voru aldrei í vandræðum með þennan leik og unnu að lokum mjög þægilegan sigur, 89-69. Keflvíkingar fá nýjan leikmann á næstu dögum, fyrrum WNBA-meistara, og þurfa þær vel á þeim stuðningi að halda. Melissa Zornig gerði lítið fyrir gestina frá Keflavík í kvöld. Chelsie Alexa Schweers var frábæran í liði Hauka í kvöld og gerði 27 stig. Eftir sigurinn í kvöld eru Haukar og Snæfellingar bæði með 26 stig.

Haukar-Keflavík 89-69 (26-15, 21-13, 21-22, 21-19)

Haukar: Chelsie Alexa Schweers 27/7 fráköst, Helena Sverrisdóttir 19/14 fráköst/9 stoðsendingar/7 stolnir/4 varin skot, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 12, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 9/5 fráköst/3 varin skot, María Lind Sigurðardóttir 8, Pálína María Gunnlaugsdóttir 5, Dýrfinna Arnardóttir 4, Sólrún Inga Gísladóttir 3, Hanna Þráinsdóttir 2, Þóra Kristín Jónsdóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0/6 fráköst, Shanna Dacanay 0.

Keflavík: Sandra Lind Þrastardóttir 18/7 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 14/6 fráköst/6 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9/3 varin skot, Melissa Zornig 8, Katla Rún Garðarsdóttir 5, Thelma Dís Ágústsdóttir 5/7 fráköst, Marín Laufey Davíðsdóttir 5/4 fráköst, Irena Sól Jónsdóttir 5, Andrea Einarsdóttir 0, Þóranna Kika Hodge-Carr 0, Elfa Falsdottir 0, Bríet Sif Hinriksdóttir 0.

Sverri: Bárum og mikla virðingu fyrir þeim„Mér fannst við bara bera of mikla virðingu fyrir þeim til að byrja með,“ segir Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, eftir tapið.

„Það var smá hræðsla í stelpunum til að byrja með og við misstum þær of langt fram úr okkur. Það var samt gaman að sjá hversu vel stelpurnar komu til baka í síðari hálfleiknum.“

Sverrir segir að Haukaliðið sé með mjög leikreyndar stelpur innanborðs og það hafi skipt sköpum.

Lið Keflavíkur í Dominos-deild kvenna í körfubolta hefur fengið mikinn liðsstyrk fyrir seinni hluta tímabilsins og úrslitakeppnina.  Moncia Wright, tvöfaldur WNBA-meistari, er komin með leikheimild með Keflavík, en hún kemur til landsins á þriðjudag og hefur þá leik með Suðurnesjaliðinu.

„Hún er að fara spila í WNBA-deildinni í sumar. Hún er ekki að fara spila alveg strax með okkur en byrjar vonandi eftir nokkrar vikur á fullu. Mellisa verður áfram hjá okkur líka. Vonandi á Wright eftir að koma inn og styrkja liðið vel.“

Helena: Verðum komnar vel í gang í úrslitakeppninni„Það er alltaf gott að komast á sigurbraut og ég er virkilega ánægð með stelpurnar,“ segir Helena Sverrisdóttir, spilandi þjálfari Hauka, eftir sigurinn.

„Leikurinn var í sjálfu sér ekkert rosalega góður hjá okkur en tuttugu stiga sigur er tuttugu stiga sigur. Við náðum góðu forskoti í fyrri hálfleiknum og héldum því.“

Helena segir að varnarleikurinn hjá liðinu í síðari hálfleiknum hafi kannski ekki verið alveg nægilega góður.

„Við verðum bara að læra af því og gera bara betur með hverjum leiknum. Það er ennþá venjulegt tímabil og við verðum flottar í úrslitakeppninni.“

Pálína: Loksins mættum við tilbúnar„Mér fannst við alveg þokkalega góðar, allavega í fyrri hálfleiknum,“ segir Pálína Gunnlaugsdóttir, eftir leikinn í kvöld.

„Við mættum loks tilbúnar til leiks og það er orðið nokkuð langt síðan við gerðum það. Liðið var að spila vel saman og við vorum að finna hvor aðra.“

Pálína segir að liðið hafi lagt upp með það að reyna dreifa spilinu eins mikið og það gat.

„Chelsie er að koma hægt og rólega inn í þetta hjá okkur og var frábær í kvöld. Hún dreifði spilinu vel í kvöld, var ekki eigingjörn og kom mjög vel út.“

Bein lýsing: Haukar - Keflavík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×