Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Grindavík - Skallagrímur 61-72 | Skelfileg byrjun Borgnesinga kom ekki að sök

Guðmundur Steinarsson í Mustad-höllinni skrifar
Tavelyn Tillman skoraði 29 stig fyrir Skallagrím og tók 11 fráköst.
Tavelyn Tillman skoraði 29 stig fyrir Skallagrím og tók 11 fráköst. vísir/ernir
Grindavíkurstúlkur tóku á móti nýliðum Skallagríms í Mustad-höllinni i kvöld. Gengi liðanna hefur verið ólíkt það sem af er vetri. Grindavík á botni deildarinnar með 4 stig en Skallagrímur í því þriðja með 12 stig.

Leikurinn byrjaði frekar rólega, liðunum gekk frekar illa að skora. Heimastúlkur tóku frumkvæðið og voru skrefi á undan gestunum frá Borgarnesi. Bæði lið voru að spila ágætis vörn og það bitnaði á sóknarleiknum.

Staðan eftir 1.leikhluta var 15-7 Grindvíkingum í vil. Skallagrímur mættu grimmari inn í annan leikhluta og fóru að hitta örlítið betur. Grindavík hleypti þeim þó ekki of nálægt og virtust vera með fín tök á leiknum. Í hálfleik voru það heimastúlkur sem leiddu með 6 stigum 33-27.

Borgnesingar mættu grimmar til leiks eftir hálfleikinn og voru á skömmum tíma búnar að jafna og komnar yfir. Þetta áhlaup virtist slá Grindavík útaf laginu í smá tíma. Liðin skiptust á að hafa forystu og allt stefndi í spennandi loka leikhluta. Skallagrímur var yfir, 50-53, eftir 3. leikhluta.

Það var sama barrátta í upphafi 4. leikhluta, Grindavík gerði gott áhlaup á gestina úr Borgarnesi. Liðin héldu áfram að skiptast á forystu þangað til að um 4 mínútur voru eftir að þá sigu gestirnir framúr og unnu að lokum 11 stiga sigur, 61-72.

Af hverju vann Skallagrímur ?

Þær voru með jafnari leik, nýttu sína styrkleika betur en Grindavík. Skallagrímur spilaði fast í kvöld og fór það á köflum í taugarnar á Grindvíkingum. Gestirnir úr Borgarnesi eru með ágætlega hávaxið lið og það kom sér vel í kvöld, þar sem að skotnýting þeirra var slök en þær jöfnuðu það út með að hirða mikið af fráköstum og fá þannig fleiri tækifæri í hverri sókn til að skora.

Bestu menn vallarins.

Tavelyn Tillman var best í kvöld. Hún fór seint í gang en stýrði liði Skallagríms til sigurs í kvöld. Tillman endaði leikinn með 29 stig og 11 fráköst. Hennar fyrstu stig komu þó ekki fyrr en eftir rúmar þrjár mínútur í öðrum leikhluta.

Ashley Grimes var allt í öllu í liði Grindavíkur með 36 stig og 14 fráköst. Liðið virðist treysta of mikið á hana í sóknarleiknum og það kom að sök undir lok leiksins þegar Grimes var orðin of þreytt til að geta látið til sín taka.

Tölfræði sem vakti athygli

Skotnýting liðanna var skelflieg í kvöld. Skallagrímur hitti úr 3 af 24 þriggja stiga skotum sínum. Þær náðu að bæta það upp með 23 sóknarfráköstum sem er flott tölfræði.

Ekki var skotnýting stúlknanna frá Borgarnesi fyrir innan þriggja stiga línuna betri eða rúm 26% sem er slök nýting hjá jafn góðu liði og Skallagrími.

Grindvíkingar voru litlu skárri, hittu úr 7 af 39 þriggja stigaskotum og voru með rúm 27% nýtingu fyrir innan þriggja stiga línuna.

Hvað gekk illa ?

Sóknarleikur liðana í kvöld var því miður ekki sá besti. Virkilega slök skotnýting og mikið um tapaða bolta. Í kvöld voru 2 atvinnukonur og 3 landsliðskonur að spila og þar fyrir utan í báðum liðum leikmenn sem hafa verið í landsliðinu og með mikla reynslu, miðað við það hefði mátt búast við flottum leik.

En svo var ekki raunin, mikið af byrjendamistökum, slök skotnýting og alltof mikið af misheppnuðum sendingum. Líklegast hittu allar þessar flottu körfuboltakonur á slæman dag á sama tíma, þannig að líklegast verður næsti leikur mun betri hjá þeim öllum því þetta var óvenjuleg sjón í kvöld.

Grindavík-Skallagrímur 61-72 (15-7, 18-20, 17-26, 11-19)

Grindavík: Ashley Grimes 36/14 fráköst/3 varin skot, María Ben Erlingsdóttir 9/13 fráköst, Ingunn Embla Kristínardóttir 6, Sigrún Elfa Ágústsdóttir 5, Ingibjörg Jakobsdóttir 2, Lovísa Falsdóttir 2/5 fráköst, Jeanne Lois Figueroa Sicat 1/5 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 0/8 fráköst.

Skallagrímur: Tavelyn Tillman 29/11 fráköst, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 12/7 fráköst, Sigrún Sjöfn  Ámundadóttir 9/12 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 8, Fanney Lind Tomas 6/5 fráköst, Auður Íris Ólafsdóttir 4/10 fráköst, Guðrún Ósk Ámundadóttir 2/5 fráköst, Sólrún Sæmundsdóttir 2, Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir 0/5 fráköst.

Bjarni: Barátta við kollinn á okkur  

Bjarni Magnússon, þjálfari Grindavíkur, var ekkert alltof hress eftir leik í kvöld. Grindavík byrjaði leikinn vel og var með ágætis tök á honum en í seinni hálfleik var annað á boðstólnum.

„Við hittum svo sem ágætlega í byrjun en sóknarlega vorum við mjög daprar. Við höfum eytt minna púðri í sóknarleikinn síðustu tvær vikur og meira í varnarleikinn á æfingum. En við vorum að hreyfa boltann of lítið og ég er óánægður með það“ sagði Bjarni eftir leikinn í kvöld.

Lykilleikmenn Grindavíkur voru komnir í smá villuvandræði í 3. leikhluta og þá reyndi á breidd liðsins.

„Já já ég vil að leikmenn nota þessar villur sem má fá, vil frekar að stelpurnar fái villur heldur en að hleypa leikmönnum framúr sér og skori auðveldlega“ sagði Bjarni.

Grindavík situr á botni deildarinnar. Aðspurður hvort það þurfi ekki eitthvað að fara gerast hjá Grindavík og snúa við gengi liðsins sagði Bjarni:

„Þessi leikur er búinn og við ætluðum að ná í sigur í dag en það gekk ekki. Mér finnst vera batamerki á nokkrum stöðum. En það er erfitt að tapa mörgum leikjum þá er þetta orðin barátta við kollinn á manni og það er sú barátta sem er í gangi hjá okkur núna,“ sagði Bjarni að lokum eftir leikinn í Grindavík í kvöld.

Sigrún Sjöfn: Komast fyrst í úrslitakeppnina áður en horft er á titilinn

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, leikmaður Skallagríms, var ánægð eftir sigurinn á Grindavík í kvöld.

„Karakterssigur, við vorum í erfiðleikum allan leikinn. Byrjuðum illa en bættum okkur alltaf smátt og smátt eftir því sem leið á leikinn,“ sagði Sigrún Sjöfn við blaðamann Vísis eftir leik.

Skallagrímur byrjaði leikinn illa og skoraði aðeins 7 stig í 1. leikhluta og 27 stig í fyrri hálfleik.

„Við töluðum um í hálfleik að skotnýtning væri hræðileg og þyrfum að bæta okkur í vörninni,“ sagði Sigrún Sjöfn.

Leikurinn var frekar harður og leit út fyrir nokkrum sinnum í leiknum að það myndi sjóða uppúr. En góðir dómarar leiksins voru með allt á hreinu.

„Þetta var erfiður leikur, hann tók á líkamlega og alveg pústrar hér og þar bara eins og gengur í svona leikjum,“ sagði Sigrún Sjöfn.

Aðspurð hvort um vanmat hafi verið að ræða í upphafi leiks að mæta liðinu í neðsta sæti vildi Sigrún Sjöfn meina að svo væri ekki og að það hefði verið búið að fara yfir það fyrir leik.

„Þær eru með hörkulið og hörkuleikmenn, allir geta skorað, en við vorum staðar og ekki nægilega hreyfanlegar í byrjun en svo kom það,“ sagði Sigrún Sjöfn og vill meina að það sé ekki pressa á liðinu þrátt fyrir spá um gott gengi í vetur. En Skallagrímur er nýliði í deildinni og var spáð Íslandsmeistaratitlinum af spekingum í upphafi vetrar.

„Við tökum bara einn leik í einu og eitt skref í einu. Við erum ekki að horfa á Íslandsmeistaratitilinn, ætlum að sjá hvort við getum ekki skilað okkur í úrslitakeppnina fyrst og sjá svo til eftir það,“ sagði Sigrún Sjöfn kát að lokum.

Bein lýsing: Grindavík - Skallagrímur


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×