Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Fram - Stjarnan 29-25 | Ófarir Stjörnunnar á útivelli halda áfram

Ingvi Þór Sæmundsson í Safamýri skrifar
Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði níu mörk fyrir Fram í kvöld.
Ragnheiður Júlíusdóttir skoraði níu mörk fyrir Fram í kvöld. Vísir/Daníel
Fram vann góðan fjögurra marka sigur, 29-25, á Stjörnunni í 8. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í kvöld.

Framkonur eru enn í 3. sæti deildarinnar, nú með 13 stig, einu stigi á eftir ÍBV og Gróttu sem mætast á morgun. Stjarnan er hins vegar í 7. sæti með átta stig en Garðbæingar hafa tapað öllum fjórum útileikjum sínum á tímabilinu.

Frábær kafli seinni hluta fyrri hálfleiks lagði grunninn að sigri Fram í kvöld en liðið vann síðustu 16 mínútur fyrri hálfleiks 11-6.

Stjarnan átti ágætis áhlaup í seinni hálfleiknum en náði aldrei að minnka muninn í minna en í tvö mörk.

Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst í liði Fram með níu mörk en þessi 18 ára stórskytta hefur byrjað tímabilið af miklum krafti. Sigurbjörg Jóhannsdóttir og Elísabet Gunnarsdóttir komu næstar með sex mörk hvor. Þá átti Guðrún Ósk Maríasdóttir flottan leik í markinu og varði alls 23 skot, eða 49% þeirra skota sem hún fékk á sig.

Þórhildur Gunnarsdóttir bar af í liði Stjörnunnar en hún skoraði sjö mörk og fiskaði fjögur vítaköst. Miklu munaði um að lykilmenn á borð við Helenu Rut Örvarsdóttur og Solveigu Láru Kjærnested náðu sér engan veginn á strik en þær skoruðu samtals fjögur mörk úr 24 skotum í kvöld. Stjarnan mátti einfaldlega við því gegn jafn sterku liði og Fram er.

Stjarnan var undirtökin í upphafi leiks og komst þrívegis tveimur mörkum yfir.

En smám saman náðu heimakonur betri tökum á leiknum, fækkuðu mistökum í sókninni og þá varði Guðrún Ósk mjög vel í markinu, alls 13 skot í fyrri hálfleik.

Sóknarleikurinn gekk eins og vel smurð vél þar sem mest bar á Ragnheiði og Elísabetu á línunni. Þær skoruðu 12 af 18 mörkum Fram í fyrri hálfleik en skotnýting heimakvenna var frábær, eða 75%.

Florentina Stanciu fann sig ekki í Stjörnumarkinu og sömu sögu var að segja af Heiðu Ingólfsdóttur sem kom í markið í hennar stað um miðbik fyrri hálfleiks.

Fram breytti stöðunni úr 7-7 í 12-8 á sjö mínútna kafla en heimakonur klúðruðu varla skoti seinni hluta fyrri hálfleiks.

Sóknarleikur Stjörnunnar var tilviljunarkenndur og leikmenn liðsins völdu ítrekað rangan kost í þeim stöðum sem upp komu.

Þórhildur var reyndar drjúg á línunni, skoraði þrjú mörk og fiskaði þrjú víti en Stefanía Theodórsdóttir var markahæst gestanna í hálfleik með fimm mörk, öll úr vítum. Hún bætti einu marki við af vítalínunni í seinni hálfleik og var næstmarkahæst í liði Stjörnunnar í kvöld með sex mörk, einu minna en Þórhildur.

Staðan í hálfleik var 18-13 og Framkonur héldu áfram þar sem frá var horfið í upphafi seinni hálfleiks. Þær skoruðu tvö fyrstu mörkin og komust sjö mörkum yfir, 20-13. Það bil náðu gestirnir einfaldlega ekki að brúa þrátt fyrir ágætis viðleitni.

Stjörnukonur héldu Frömmurum í níu mörkum á síðustu 26 mínútum leiksins en þær nýttu ekki þau tækifæri sem gáfust í sókninni til að minnka muninn enn frekar.

Stjarnan breytti stöðunni úr 23-17 í 24-22 þegar um 10 mínútur voru eftir en tvö mikilvæg mörk frá Hildi Þorgeirsdóttur héldu Garðbæingum í hæfilegri fjarlægð.

Gestirnir náðu aldrei að minnka muninn í meira en tvö mörk og svo fór að Fram landaði fjögurra sigri, 29-25.

Sigurbjörg: Skutum vel á Florentinu

Sigurbjörg Jóhannsdóttir átti fínan leik þegar Fram lagði Stjörnuna að velli, 29-25, í Olís-deild kvenna í kvöld.

Frábær spilamennska seinni hluta fyrri hálfleiks lagði grunninn að sigri Fram í kvöld en liðið gerði svo nóg til að halda forystunni í seinni hálfleik.

"Við skiluðum góðum fyrri hálfleik og það var mikil vinna og barátta í liðinu sem gaf okkur byr undir báða vængi fyrir seinni hálfleikinn," sagði Sigurbjörg sem skoraði sex mörk í kvöld, þar af þrjú úr vítaköstum.

Framliðið var með frábæra skotnýtingu í kvöld (62%), og þá sérstaklega í fyrri hálfleik (75%), en landsliðsmarkvörðurinn Florentina Stanciu fann sig ekki í marki Stjörnunnar.

"Við vorum yfirvegaðar og ákveðnar og gerðum það sem var lagt var upp með. Við vorum skynsamar í skotunum og skutum vel á hana sem skilaði þessari góðu skotnýtingu," sagði Sigurbjörg sem var alveg í rónni í seinni hálfleik þrátt fyrir ágætis áhlaup Stjörnukvenna.

"Við hleyptum þeim aðeins of nálægt okkur og héldum spennu í leiknum en ég hafði aldrei slæma tilfinningu fyrir þessu. Ég hefði viljað hafa þetta öruggara."

Sigurbjörg er að koma aftur eftir krossbandsslit en hún lék nær allan leikinn í kvöld. Hún segir batann hafa verið skjótan og kveðst ánægð með hvernig til tókst í endurhæfingunni.

"Þetta hefur gengið mjög vel og ég er virkilega ánægð. Þetta var örugglega erfiðasti leikurinn hingað til en þetta var fyrsti leikurinn þar sem ég spila 60 mínútur. Ég finn að þetta er allt að koma og ég verð alltaf sterkari og sterkari," sagði Sigurbjörg og bætti við:

"Þetta hefur gengið framar vonum og það hefur aldrei komið neitt bakslag."

Halldór Harri: Styttist í fyrsta útisigurinn

Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar, sagði varnarleik Garðbæinga hafa verið slakan í fyrri hálfleik í 29-25 tapi fyrir Fram á útivelli í kvöld.

"Við fengum á okkur 18 mörk í fyrri hálfleik og það er alltof mikið. Við náðum aðeins að loka á það í þeim seinni en það var ekki nóg," sagði Halldór en staðan var heldur dökk hjá Stjörnunni í upphafi seinni hálfleiks, enda munurinn sjö mörk, 20-13.

Stjörnukonur spiluðu betur í seinni hálfleik og náðu nokkrum sinnum að minnka muninn í tvö mörk. En nær komust gestirnir ekki en þeir fóru illa með þau tækifæri sem gáfust í sókninni.

"Mér fannst vörnin að mörgu leyti góð í seinni hálfleik en auðvitað voru nokkur skipti þar sem við hefðum getað gert betur.

"Svo klúðruðum við nokkrum opnum færum eftir að við náðum að minnka muninn í tvö mörk," sagði Halldór en Stjarnan fékk ekki nógu mikið framlag frá lykilmönnum á borð við Solveigu Láru Kjærnested og Helenu Rut Örvarsdóttur sem skoruðu samtals fjögur mörk úr 24 skotum í kvöld. En átti Halldór einhverja betri kosti á bekknum fyrst Solveig og Helena fundu sig ekki?

"Já, ég er með fullt af möguleikum. Við erum að rúlla þessu ágætlega," sagði Halldór og bætti við:

"Það sem er jákvætt miðað við síðustu leiki er að við vorum að koma okkur í færi og skjóta á réttum augnablikum."

Stjarnan hefur verið stöðug í óstöðugleika sínum í vetur en liðið hefur unnið og tapað á víxl. Allir sigrarnir hafa komið á heimavelli en öll töpin utan Mýrinnar. Halldór segir að það styttist í fyrsta útisigurinn.

"Við höfum mætt góðum liðum á útivelli en ég hefði viljað vinna einhverja af þessum leikjum og við teljum okkur vera með nógu sterkt lið til þess. Það styttist í útisigur, hann kemur allavega í ár," sagði Halldór að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×