Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: FH - Akureyri | Ágúst Elí í ham í mikilvægum sigri FH

Anton Ingi Leifsson í Kaplakrika skrifar
Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH.
Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH. vísir/stefán
FH vann mikilvægan sigur á Akureyri í 22. umferð Olís-deildar karla, en lokatölur urðu 26-21. Eftir sigurinn er FH í áttunda sætinu, sex stigum frá fallsæti og einungis einu stigi frá Akureyri sem er í sætinu fyrir ofan. 

Fyrri hálfleikurinn var kaflaskiptur. Akureyri byrjaði betur fyrsta stundarfjórðunginn, en svo fóru hvítklæddir heimamenn að spila betur. Þeir leiddu í hálfleik 13-11, en í síðari hálfleik voru heimamenn sterkari og unnu að lokum fimm marka sigur, 26-21.

Gestirnir frá Akureyri byrjuðu leikinn afar vel. Þeir skoruðu fjögur mörk gegn einungis einu frá FH-ingum, en varnarleikur FH var ekki upp á marga fiska. FH komst þó inn í leikinn með hertari varnarleik og breyttu stöðunni úr 2-5 í 5-5 og leikurinn í járnum.

Báðir markmenn liðana voru í ágætu stuði í fyrri hálfleik og vörðu nokkur dauðafæri, en Ágúst Elí Björgvinsson í marki FH var með 45% markvörslu í fyrri hálfleik og Tomas Olason í marki Akureyrar með 48% markvörslu. FH var að tapa boltanum á skringilegan hátt á köflum og voru ef til vill að flýta sér einum of mikið og það gerðist einnig fyrir Akureyri þegar líða fór á hálfleikinn.

Akureyri var að spila fínan bolta sóknarlega og góða vörn, en um leið og FH fór að finna Ásbjörn Friðriksson í vinstri skyttunni fór munurinn að minnka. Hann skoraði nokkur mörk á stuttum kafla þar sem FH breytti stöðunni úr 7-9 í 11-9 sér í vil og komnir í kjörstöðu fyrir hálfleikinn. Þeir leiddu svo einmitt með tveimur mörkum í hálfleik, 13-11.

Í síðari hálfleik héldu FH-ingar uppteknum hætti. Þeir skoruðu tvö fyrstu mörk síðari hálfleiks og munurinn orðinn fjögur mörk. Sóknarleikur Akureyrar var heldur betur stirður og Bergvin Þór Gíslason skoraði á 35. mínútu og minnkaði muinn í 16-14, en næsta mark kom ekki fyrr en á 43. mínútu þegar Bergvin skoraði aftur og minnkaði muninn þá í 18-15.

Ágúst Elí Björgvinsson fór á kostum í mark FH og varði og varði, en sóknarleikur FH var ekki það öflugur að þeir stungu af. Þeir klúðru boltanum stundum á klaufalegan hátt og tóku óskynsamleg skot. Þegar stundarfjórðungur var eftir var munurinn einungis tvö mörk, 18-16.

Ágúst Elí hélt áfram og Ásbjörn áfram að skora og FH sigldi sigrinum nokkuð örugglega heim, en Akureyri var tveimur mörkum undir, 20-18, þegar tíu mínútur voru eftir. Nær komust þeir ekki og FH skoraði sex gegn einungis þremur mörkum frá gestunum og lokatölur urðu 26-21, sigur heimamanna.

Ásbjörn Friðriksson var frábær í liði FH. Hann skoraði átta mörk og keyrði FH-liðið áfram á ögurstöndu. Ágúst Elí Björgvinsson var einig gjörsamlega frábær og hann tók hvert dauðafærið á fætur öðru. Vörnin hélt vel, en liðið fékk einungis 21 mark á sig.

Bergvin Þór Gíslason var markahæstur í liði gestanna með fimm mörk úr níu skotum, en næstur kom línumaðurinn  Halldór Logi Árnason. Fleiri hefðu þurft að koma með meiri framlag í sóknarleik Akureyrar til þess að þeir hefðu farið með stig úr Kaplakrika í kvöld.

FH er eftir sigurinn í áttunda sæti deildarinnar með 18 stig, stigi á eftir Akureyri sem er í sjöunda sætinu. Síðan kemur mjög þéttur pakki fyrir ofan þessi lið, en ÍR er nú sex stigum fyrir neðan FH, í fallsæti. Útlitið dökkt hjá ÍR.

Halldór Jóhann: Viljinn var meiri hjá okkur en Akureyri

„Þetta var virkilega sterkur sigur og ég er gríðarlega ánægður,” sagði Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH, í samtali við Vísi í leikslok.

„Ég er ánægðastur með viljann og allt það. Leikurinn sem sjálfur var ekkert fallegur, allt of mikið af teknískum feilum og allt það, en viljinn var til staðar. Viljinn til þess að vinna og viljinn til að taka næsta bolta og halda spennustiginu þrátt fyrir að allt hafi ekki gengið upp.”

„Einar Rafn er ekki með sinn besta leik í dag, en þá kemur bara næsti maður og spilar frábærlega. Ágúst Elí var frábær, Ásbjörn frábær, vörnin frábær, Jón Bjarni,” og hélt áfram að lofsama sína menn:

„Við missum Ágúst Birgisson útaf með rautt spjald og þurftum aðeins að rótera, en það er viljinn fyrst og fremst í liðinu sem skóp þennan sigur. Viljinn var meiri hjá okkur, en Akureyri.”

FH er nú komið sex stigum frá ÍR sem er í fallsæti, því níunda, og er þetta farið að líta mun betur út hjá FH, en það gerði á tímapunkti.

„Við þurfum að taka einn leik í einu og við erum ekki að hugsa um neinn sem er eftir þrjár vikur eða eitthvað. Næsti leikur er eftir tvær vikur og við fögnum í kvöld og síðan byrjar undirbúningur fyrir leik gegn Val,” en FH á mjög erfitt leikjaprógramm framundan.

„Við eigum Val, Hauka, Aftureldingu og Fram í næstu fjórum leikjum og alla á útivelli. Það verður gríðarlega erfitt prógram og í ljósi þess er þessi sigur mikilvægur fyrir okkur,” sagði Halldór Jóhann að lokum.

Sverre: Hvert tap er bakslag

„Þetta eru gífurleg vonbrigði miðað við hvernig við töpuðum. Við áttum ekki skilið meira en þetta í dag,” sagði Sverre Jakobsson, þjálfari Akureyrar, í samtali við Vísi stuttu eftir leik.

„Við byrjuðum vel, en þú nærð ekki miklum árangri ef þú spilar bara góðar tíu mínútur og ég hreinlega veit ekki hvað gerist svo. Staðan í hálfleik er svo allt í lagi þrátt fyrir að við séum ekki ánægðir með spilamennskuna í heildina. Svo erum við bara miklir klaufar í síðari hálfleik.”

„Við skjótum mjög illa á Ágúst og á ögurstöndum tókum við rangar ákvarðanir. Í rauninni vorum við aldrei líklegir í síðari hálfleik, nema kannski þarna rétt í byrjun síðari hálfleiks. Þá náum við smá baráttu og minnkuðum þetta í tvö mörk, en mér fannst við aldrei stiga skrefið til fulls sem þurfti í þessum leik.”

„Hann var með einhverja 24 eða 25 bolta. Hann gerir sama hlutinn aftur og aftur og við reynum annað hvort að benda á það eða ræða það, en við höldum því áfram. Kannski minnkaði hjartað aðeins við hvert skot og það vantaði mikið upp á skotgæðin í dag.”

Akureyri vann góðan sigur gegn ÍR í síðustu umferð og segir Sverre þetta bakslag.

„Hvert tap er backslap, engin spurning. Við vorum í ákveðnu færi hérna í dag að koma okkur lengra úr þessum pakka og búa til smá bil við FH. Það var mikið um að spila og líka hjá þeim og þeir höfðu þetta extra umfram okkur í dag,” sagði Sverre hundfúll í leikslok.

Ágúst Elí: Hlusta ekki á hann í hálfleik

„Þetta var nauðsynlegur sigur og við stóðum undir pressunni,” sagði Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH, sem varði og varði í markinu.

„Ef ég tala fyrir sjálfan mig þá var eins og ég væri sofandi fyrstu sex mörkin og síðan allt í einu kveiknaði á mér. Það gekk vel eftir það,” en aðspurður hvað Halldór, þjálfari, hafi sagt í hálfleik svaraði Ágúst:

„Ég hlusta ekki á hann í hálfleik. Ég er sjálfur að reyna dreifa huganum; hugsa um hvað ég gerði um daginn og hvað ég ætli að gera á morgun og eitthvað.”

„Ég var ánægðastur með agann. Ég zoon-aði svo oft út í markinu útaf flottum markvörslum, en aginn og varnarleikurinn var mjög góður,” sem segir sigurinn mikilvægan til að komast lengra frá ÍR:

„Þeir eru búnir að vera nálægt rassgatinu á okkur mjög lengi og við náðum aðeins að slíta okkur frá þeim og erum stigi á eftir Akureyri.”

Ágúst Elí var frábær í markinu, en var þetta hans besti leikur á tímabilinu?

„Já og nei. Þetta var mikið af sjónvarpsvörslum, en ég var dálítið lengi í gang. Þetta var allaveganna á topp fimm,” sagði Ágúst í samtali við Vísi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×