Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 33-25 | Valskonur skutu Stjörnuna niður

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Vísir
Valur er en taplaust á toppi Olís deildar kvenna eftir frábæran átta marka sigur á Stjörnunni í kvöld, 33-25. Valskonur stjórnuðu leiknum allt frá fyrstu mínútu en staðan í hálfleik 18-14.



Leikurinn hófst á skelfilegum kafla Stjörnunnar, Valur átti yfirhöndina á öllum sviðum og staðan orðinn 9-2 þegar 10 mínútur voru liðnar af leiknum. Með bættum sóknarleik náði Stjarnan að komast inní leikinn og náði að minnka muninn niður í tvö mörk,13-11, en staðan þegar flautað var til loka fyrri hálfleiks, 18-14. 



Seinni hálfleikurinn hófst á svipuðum nótum, Valur hafði yfirhöndina og Stjarnan reyndi að minnka forskot heimakvenna sem fór aldrei niður fyrir tvö mörk. Sóknarleikurinn hélt áfram að vera kaflaskiptur hjá gestunum og þegar þær gátu minnkað forskotið niður í eitt mark þá kom hryna af slökum sóknum og Valur komst í fimm marka forystu aftur. Valur komst mest í 9 marka forystu en síðustu mínúturnar voru auðveldar fyrir heimastúlkur sem luku leik með átta marka sigri 33-25. 



Af hverju vann Valur 

Valur var betra liðið á öllum vígstöðvum, þær byrjuðu leikinn að krafti og var sigurinn aldrei í hættu. Stjarnan gerði þeim heldur ekki erfitt fyrir en þær spiluðu mjög slakan varnarleik í dag ásamt því að tapa boltanum ítrekað í sókninni og nýttu Valsstúlkur sér það með auðveldum mörkum og héldu góðri forystu allan leikinn. Valur er taplaust í deildinni og sýndi það í dag hvað þær hafa uppá að bjóða, flottur leikur í alla staði. 



Hverjar stóðu uppúr 

Eins og oft áður þá var það Diana Satkauskaite sem stóð uppúr í liði Vals, hún skoraði 11 mörk í dag. Innkoma Linu Rypdal í markinu var einnig mjög góð. 

Þórhildur Gunnarsdóttir átti fínan leik fyrir Stjörnuna, barðist allan leikinn og skoraði 7 mörk rétt eins og Ramune Pekarskyte.  



Hvað gekk illa 

Fyrst og fremst var það varnarleikurinn hjá Stjörnunni sem gekk illa, lítil sem engin vörn allann leikinn og náðu markverðirnir sér aldrei almennilega á flug. Sóknarleikur liðsins var kaflaskiptur en alltof margir tapaðir boltar gerði þeim erfitt fyrir.  Varnarleikur Vals hefði oft á tíðum mátt vera þéttari en þær fá sig 25 mörk í dag, Chantal Pagel fann sig ekki í markinu í fyrri hálfleik en innkoma Linu Rypdal í seinni hálfleiknum var mjög góð.  

Hvað er næst

Næstu leikir eru á sunnudaginn, þá tekur Stjarnan á móti botnliði deildarinnar, Gróttu en Valur kíkir í Grafarholtið á Fjölnis stúlkur

 

 

Ágúst Þór: Það er mikið hungur í liðinu

Ég er mjög ánægður með þetta sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, en hann var að vonum sáttur eftir leik kvöldins, átta marka sigur á stórliði Stjörnunnar. 



Mér fannst stelpurnar spila vel, við höfðum kontról á leiknum allan tímann. Varnarleikurinn var þéttur og við skoruðum mikið úr hraðaupphlaupum, svo var flott að byrja leikinn vel, betra að byrja leikinn strax heldur en eftir tíu mínútur

Ágúst sagði að fáir tæknifeilar og uppstillt vörn liðsins hafi verið lykillinn að sigrinum í kvöld en slíkt þarf að vera í lagi til að vinna lið eins og Stjörnuna. Stjarnan hefur þó oft átt betri leiki en þær sýndu í kvöld. 

Þær byrjuðu illa en komu sér síðan inní leikinn og eru alltaf stórhættulegar enda með mjög gott lið en við hleyptum þeim aldrei nær okkur heldur en tvö mörk svo kom Lina sterk inn í markið í seinni hálfleik og þá var þetta aldrei spurning. sagði Ágúst Þór sem kom inná hversu ánægður hann hafi verið með vinnuframlag stelpnanna í dag. 

Það var mikið hungur í liðinu að ná í sigur, það var mikið vinnuframlag og góður liðsheildar bragur á leik liðsins.

Valur er eina taplausa liðið í deildinni, hefur Ágúst trú á því að liðið fari taplaust í gegnum mótið ? 



Tökum einn leik í einu, engar yfirlýsingar en á meðan við erum að spila svona þá náum við í fleiri sigra. Við þurfum að hafa mikið fyrir þessu og stelpurnar eru að leggja mikið á sig. 

 



Halldór Harri: Ég get ekki alltaf sagt að það sé nóg eftir af þessu móti

Hundsvekktur og óánægður með það hvernig við spiluðum í dag, sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. 

Við mætum þannig séð ekki til leiks, erum lélegar í byrjun og byrjum strax að elta. 

Stjarnan hefur sjaldan átt jafn slaka byrjun og í kvöld, en liðið var ekki með fyrstu tíu mínúturnar hvorki í vörn né sókn, Halldór segir fullt af útskýringum en engar afsakanir séu fyrir þessari byrjun. 

Það eru fullt af útskýringum og ástæðum. Stelpurnar voru staðráðnar í því að mæta af fullum krafti til leiks og vera klárar frá byrjun en það var greinilega ekki að skila sér. Við gerum mikið af mistökum, gerum þetta einfalt fyrir Val og náum varla að klukka bolta fyrstu tíu mínúturnar.  

Stjarnan komst þó inní leikinn um miðbik fyrri hálfleiks og náði að minnka forskot Vals niður í tvö mörk en varnarleikur liðsins hélt þó ekki og var slakur mest allann leikinn

Við fáum á okkur 18 mörk í fyrrihálfleik og 15 í seinni hálfleik, þú vinnur ekki leiki þannig. Við reyndum að breyta til í vörninni, fórum aðeins framar en töpuðum í hverri einustu stöðu og varnarleikurinn var bara lélegur.  sagði Harri, en tekur hann eitthvað jákvætt með sér úr leiknum ? 

Kannski eftir 4 klukkutíma finn ég eitthvað en eins og staðan er núna þá sé ég ekki mikið.  

Stjörnunni var spáð efsta sæti deildarinnar en liðið hefur ekki staðið undir væntingum í ár og hefur sætt gagnrýni fyrir leik sinn sem af er

Það er mikið eftir en ég þarf að passa mig, ég get ekki alltaf sagt það, við verðum að bæta okkar leik og fara að taka einhver stig og komast í þessa baráttu um efstu fjögur sætin.  

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira